135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst tónninn í ræðu hv. þingmanns vera sá að það sé mikilvægt að umgerð þjónustustofnana, sem eru jú hluti af grunnstoðþjónustu eða verkefnum ríkisins, sé slík að við getum fylgst með því að þjónustan sé innt af hendi eins og ætlast er til, að viðkomandi stofnun sinni þeim verkefnum sem henni er ætlað að sinna og síðan varðandi fjárhagslegt eftirlit að unnið sé þannig að sem best og hagkvæmust nýting sé á meðferð fjármuna, að þetta sé mikilvægt. Aftur á móti höfum við upplifað það í tíð síðustu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að reynt sé að koma þessari starfsemi út úr þessu formi, út úr því að Alþingi geti haft beinan aðgang að upplýsingum, að þingnefndir geti haft beinan aðgang að upplýsingum og þá hefur ráðningarform opinberra starfsmanna einnig verið rofið. Í því felst einkavæðingin. Hún felst í því þegar upplýsingalög eru tekin úr sambandi, þegar lög og reglur og kvaðir um skyldur um opinbera starfsmenn eru tekin úr sambandi, þegar það er tekið úr sambandi að hægt sé að fylgjast eðlilega með því.

Einkavæðing á starfsemi sem getur þrifist í góðri og öruggri samkeppni og lýtur að samkeppnisrekstri sem slíkum getur í hæsta máta verið eðlileg. En einkavæðing á grunnþjónustu, stoðþjónustu sem er annars vegar hluti af almannaþjónustunni sem við viljum að standa vörð um og á sér hins vegar kannski enga samkeppnismöguleika á að mínu viti ekki rétt á sér. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort (Forseti hringir.) hann sé ekki sammála mér í þeim efnum.