135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[16:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það hefur valdið mér hugarangri að Samfylkingin skuli hafa tekið upp stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli og vísa til þess að ríkisstjórnin hafi ekki heimild til að stöðva virkjanirnar við Þjórsá, það sé á valdi sveitarstjórnar. Það er alrangt. Til þess að þetta nái fram að ganga þarf að fara fram eignarnám og ég hef rökstutt það margsinnis að skilyrði þess eru ekki fyrir hendi, það skortir almenningsþörf.

Í öðru lagi hef ég sagt og rökstutt, með lögfræðilegum hætti og öðrum, að Títan-samningarnir sem Landsvirkjun dregur rétt sinn af og ríkisstjórnin framseldi Landsvirkjun heimila ekki stíflugerð, lónagerð, að taka ána úr sambandi. Þegar Títan-samningarnir voru gerðir 1915 var byggt á þeirri meginreglu að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið. Sú regla gildir enn þannig að Títan-samningarnir heimila ekki annað en rennslisvirkjanir. Þeir heimila ekki að byggja þrjú stór lón og spilla grunnvatnsstöðu með jafnalvarlegum hætti og raun ber vitni og skapa verulega flóðahættu, sérstaklega niður Skeiðin og út í Ölfusá og Hvítá. Þeir heimila það ekki. Títan-samningarnir heimila ekki að taka Þjórsá úr sambandi á löngum köflum fyrir neðan allar virkjanirnar þrjár og breyta 110 rúmmetra rennsli í Elliðaárnar. Það er algjörlega deginum ljósara að Títan-samningarnir byggja á réttargrundvelli Jónsbókar og þeirra reglna sem gilda um vötn á þeim tíma, þeim hefur ekki verið breytt með vatnalögum.

Með því að ætla sér að reisa þessi lón er Landsvirkjun að taka sér meira vald. Ergó, leiðin út úr þessum málum, leiðin til sátta, er að Samfylkingin og ríkisstjórnin taki af skarið, banni Landsvirkjun að fara fram með eignarnámi og segi henni að fara af stað með rennslisvirkjanir. (Forseti hringir.) Það er leiðin út úr þessu vandræðamáli. (Gripið fram í: Ég hef alltaf sagt …)