135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[16:05]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Helstu efnisatriði þessa máls hafa komið hér fram, en það er spá mín að eftir því sem dagarnir líða muni upphlaup vinstri grænna í þinginu í þessum málaflokki aukast til þess að draga athygli frá þeirri staðreynd að þar sem þó þessi ágæti flokkur hefur vald, sem er hér í sveitarfélaginu Reykjavík, virðist flokknum vera gersamlega ómögulegt að setja fram nokkra stefnu í orkumálum. Þar er svarið stanslaust þetta: Málið verður skoðað, þetta er í bið, þetta er eitthvað sem við höfum ekki getað ákveðið. Til að fela þetta er líklegt að vinstri grænir á Alþingi muni tala hærra og hærra, en það breytir ekki þeirri staðreynd að þar sem þessi flokkur hefur vald og áhrif hleypur hann frá ábyrgðinni, og á harðahlaupum. Spurningin verður síðan þessi: Hvort ræður stefna Samfylkingarinnar hér í Alþingi eða sú stefna — komi hún einhvern tímann fram — sem mun ríkja í sveitarfélaginu Reykjavík?

Hvað varðar virkjanirnar í Þjórsá hafa þær staðist umhverfismat og það er mál flestra sem þekkja vel til þessa að séu til einhverjar virkjanir á Íslandi eða virkjunarkostir sem hafi lítil og ásættanleg áhrif á umhverfið séu það einmitt þeir virkjunarkostir sem við höfum rætt hér. Þess vegna hef ég fyrir mína parta fallist á og verið algjörlega sáttur við þessar framkvæmdir. Menn geta haft einhverjar skoðanir á því hvort Landsvirkjun sæki þetta fast eða hvernig þar er staðið að samningum. Ég þekki þá þætti ekki alla ofan í grunninn til að kveða upp úr um það en ég er alveg sannfærður um að forustumenn í Flóahreppi láta ekki kúga sig til eins eða neins. Þetta er stjórnvald sem hefur umboð frá kjósendum sínum til að fara með réttindi, semja um þau réttindi sem hér er um að ræða og ég lýsi yfir fullu trausti á þá forustumenn sem þar hafa unnið að þessum málum. Það er engin ástæða til að ætla annað.

Ég vænti þess og vona að í umræðunni um umhverfismál (Forseti hringir.) láti menn af því að fara fram með upphrópanir um að menn hafi verið beittir slíkum bolabrögðum eða óeðlilegum þvingunum að því sé líkt (Forseti hringir.) við það að menn standi með byssu í hendi. Ég tel að það sé ekki viðeigandi úr ræðustól Alþingis.