135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[16:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Helgi Hjörvar setti fram í þessari umræðu.

Það sem vakti athygli mína í því að hér er tekin upp umræða undir liðnum um störf þingsins — sem mér finnst gott, mér finnst mikilvægt að þingmenn ræði störf þingsins — er að henni var að sumu leyti beint að fjarstöddum, þ.e. hv. þingmaður var alveg meðvitaður um að bæði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra eru með fjarvistarleyfi í dag og því ekki á staðnum til að svara því sem að þeim var beint. Á sama hátt þótti mér heldur miður að þó að hv. þingmaður hafi ákveðin sjónarmið í umhverfismálum sé það sett fram í ræðustól að þeir sem hafi önnur sjónarmið byggi þau á einhverjum annarlegum hvötum. Mér þykir miður að það sé lagt upp á þennan hátt því að vissulega hefur hreppsnefnd Flóahrepps sjálfdæmi um það hvaða ákvarðanir hún tekur.

Á sama hátt liggur einnig fyrir að sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvernig þessi mál kunna að þróast. Þau hafa með skipulagsvaldið að gera þannig að stærsti þátturinn í þessu máli er vissulega hjá sveitarfélögunum.

Hins vegar kom hv. þm. Atli Gíslason með málflutning um eignarnám. Engin ákvörðun hefur verið tekin um eignarnám, ekki nokkur einasta. Þess vegna finnst mér heldur snemmt að leggja það upp þannig að slíkar ákvarðanir liggi fyrir. Það er mikilvægt að svona umræða fari fram af yfirvegun og festu, og málefnalega en ekki í upphlaupum af þeim toga sem hér hefur átt sér stað.