135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[16:12]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að tala niður til sveitarstjórnarmanna. Ég er að tala niður til þeirra sem styðja ekki heimafólk. Talið við heimafólk við Þjórsá, heyrið hvað það hefur að segja um ægivald Landsvirkjunar sem (Gripið fram í.) vel að merkja er í 100% eigu ríkisins. (Gripið fram í.) Hvenær ætlar ríkisstjórnin öll að viðurkenna að hún á að stýra þessu fyrirtæki í þágu fólksins í landinu? (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að hlusta á svona málflutning. Hvers vegna hvöttu ráðherrar og þingmenn ekki heimafólk og hreppsnefndir til dáða gegn ofríkinu, gegn ólýðræðislegum vinnubrögðum? (Gripið fram í.) Staðreyndin er sú, virðulegur forseti, að sveitarstjórnir eru notaðar til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og Samfylkingin er notuð til að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins. Enginn hefur svarað hér meginspurningunum varðandi þetta mál heldur farið út og suður.

Ég spyr: Hvar er skýr yfirlýsing um að ekkert eignarnám verði við Þjórsá, hvort sem fleiri eða færri ljúka nauðasamningum? Hverju ætlið þið að svara fólkinu við Þjórsá um þetta? Hvers vegna eru framkvæmdir Landsvirkjunar ekki stöðvaðar meðan samningum er ekki lokið? Hvers vegna eru Títan-samningarnir ekki ógiltir? Hvers vegna er sú siðlausa ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um að gefa Landsvirkjun vatnsréttindin ekki tekin aftur? Og hvers vegna hefur enginn innan ríkisstjórnarinnar gert minnstu tilraun til að hrófla við þessu þrátt fyrir fögur loforð og orðaflaum í fjölmiðlum á hverjum degi?

Greiðir ríkisstjórnin og Alþingi fyrir gylliboðum Landsvirkjunar í Flóann með fé utan vegáætlunar í skiptum fyrir virkjun? Hvað er nákvæmlega í gangi? Fáum allt upp á yfirborðið og dreifum ekki þessari umræðu út og suður. Tölum um nákvæmlega þetta mál og hvernig að því hefur verið staðið. (Forseti hringir.)

Ég vil svo sannarlega (Forseti hringir.) taka þetta mál aftur upp þegar hæstv. ráðherrar eru hér í þingsal.