135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er engu nær eftir þetta svar. Þetta var svo almenns eðlis að það var ekki hægt að greina meininguna. Það var hægt að greina orðaskil en ekki hægt að greina neina meiningu bak við orðin.

Ég vil spyrja aftur: Þýðir þetta að dvalarheimilin fari frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins? Já eða nei. (Heilbrrh.: Já.) Svarið er já.

Þýðir þetta að hjúkrunarrými á minni sjúkrahúsum verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu? Já eða nei. (Heilbrrh.: Já.) Já.

Þá vil ég, til að reyna að skýra þetta, þetta er allt að koma, spyrja: Hvaða önnur almenna öldrunarþjónusta er það sem hér er talað um að færist til félagsmálaráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneytinu, sem er ekki búsetuúrræði? Hvaða aðra almenna öldrunarþjónustu er hér vísað í? Ég áttaði mig ekki á því í svari hæstv. ráðherra.