135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að forseti eigi að vera umburðarlyndur þegar líður á daginn og menn eru komnir í rabbgírinn. En ég ætla ekki að ræða þennan flutning sem slíkan, þ.e. tryggingamála yfir til félagsmálaráðuneytisins. Það er meginefni þessa frumvarps.

En það er eitt atriði sem ég staldra við, sem mér sýnist vera hreint smyglgóss í þessu frumvarpi. Það er 18. gr. sem á að heimila heilbrigðisráðherra að setja á fót ekki minna en eina ríkisstofnun sem eigi að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og ráða henni forstjóra til fimm ára. Hvað erindi á þetta ákvæði inn í þetta frumvarp? Hvers vegna er það með í frumvarpinu? Hér er augljóslega verið að ryðja brautina fyrir drauma Sjálfstæðisflokksins og búa í haginn fyrir áform um aukna einkavæðingu. Það blasir við hverjum manni. Þarna er verið að smíða tæki til þess.

Hins vegar er það svo vanbúið enn þá að boðað er að flutt verði frumvarp um málið í vor. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Af hverju bíður málið ekki þess að það sé sæmilega reifað og búið af hálfu ráðherra? Hvers vegna er hæstv. ráðherra að stofna til ófriðar um þetta verkaskiptingarmál sem að öðru leyti þyrfti ekki að vera svo umdeilt? Menn hafa almennt séð ýmis rök fyrir því að fara í þessa endurskipulagningu þó ýmislegt annað og flest annað sé illa unnið af hæstv. ríkisstjórn þá hefði þetta eftir atvikum getað talist brúklegt. Nei, þá treður Sjálfstæðisflokkurinn þessu hér inn. Hvað á það að þýða?

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er hann tilbúinn að taka til greina að þetta verði tekið út úr frumvarpinu, eigi það að ná afgreiðslu hér fyrir jól?

Ég spyr í öðru lagi hæstv. félagsmálaráðherra, sem er hér viðstödd umræðuna og ætlar væntanlega að tala síðar: Er Samfylkingin búin að skrifa upp á þetta? Er Samfylkingin algjörlega búin að selja sig undir stefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum?

Það er ekki nóg með að láta Sjálfstæðisflokkinn fá heilbrigðisráðuneytið, sem hann hefur blóðlangað í lengi eins og kunnugt er, heldur virðist Samfylkingin því miður farin að skrifa hreinlega upp á stefnu flokksins ef marka má þetta.