135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:45]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er bara að það komi fram. Það er búið að ættleiða hugmyndina til kratismans í Svíþjóð af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég skil ekki af hverju hann spurði ekki þennan sem hér stendur af hverju í ósköpunum menn væru að taka upp þessar vinstri sinnuðu hugmyndir úr því að hann er búinn að gangast við því hvaðan þær eru. (Gripið fram í.) Það hefði kannski verið gott ef það hefði komið fram í fyrri fyrirspurn hans hvaðan þetta hefur komið því það mátti svo sannarlega skilja að þetta væri einhvers staðar allt annars staðar komið heldur en frá þessum slóðum sem hann þó fór ágætlega yfir áðan þannig að menn aðeins haldi því til haga.

En þetta er ekki lítið mál og ég mundi ætla að það hlytu að vera rök ef menn setja fram lagasetningu um þessi mál að það sé í stjórnarsáttmálanum. Menn geta verið ósammála eða sammála stjórnarsáttmálanum. En hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því, virðuleg forseti, að menn eigi að fylgja stjórnarsáttmálanum eftir og það er nákvæmlega það sem verið er að gera. Nema hvað! Menn geta ekki komið hér og sagt að þeim líki ekki að það sé í einhverju frumvarpi, að það sé smyglgóss og að það sé að fá far og annað slíkt. (Gripið fram í.) Það liggur alveg fyrir og hefur legið fyrir (Gripið fram í.) hvað ríkisstjórnin ætlaði sér í þessum málum. Það hefur verið afskaplega skýrt. Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum, virðulegi forseti. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir. Það getur ekki verið skýrara. Þannig er því máli fyrir komið. Það liggur hins vegar fyrir að menn munu ekki fara sér hratt í þessum efnum. Það borgar sig að vanda til verka hvað þetta varðar. Hins vegar er ánægjulegt að fá viðbrögð þeirra aðila sem stýra þessum stofnunum. Það kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku að þeir fögnuðu því að menn væru að fara þessa leið og að við værum að feta okkur á þessa braut. Það er ánægjulegt í sjálfu sér og við skulum vona að þetta muni ganga vel. En það er alveg rétt hjá (Forseti hringir.) hv. þingmanni að það ber að vanda til verka.