135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:48]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þennan bandorm sem hér er til umræðu í framhaldi af ákvörðun um verkaskiptingu milli ráðuneyta sem snúa meðal annars að almannatryggingum og málefnum aldraðra og fagna því frumvarpi og þeim lagabreytingum sem lagðar eru fram í þessu þingskjali. Hér er verið að leggja til að tryggingamálin færist yfir til félagsmálaráðuneytisins og það er verið að breyta almannatryggingunum í sömu veru og þau eru á Norðurlöndunum og hafa verið lengi. Almannatryggingarnar þar hafa heyrt undir félagsmálaráðuneytin og það þótti skrýtið þegar það kom fram á Norðurlöndum að við værum með þetta undir heilbrigðisráðuneytinu.

Varðandi umræðuna sem var áðan um sjúkratryggingahlutann þá skiptast almannatryggingarnar í þrennt. Það er í fyrsta lagi lífeyriskaflinn. Lífeyristryggingarnar fara allar yfir í félagsmálaráðuneytið með þessari breytingu. Annar hluti almannatrygginganna eru sjúkratryggingarnar. Þær verða áfram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Síðan eru það slysatryggingarnar sem verða áfram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Mér hefur alltaf fundist að þær ættu að vera undir félagslega þættinum, slysatryggingarnar, því þær eru meira félagslegar bætur og vinnumarkaðstengdar. En niðurstaðan varð sú að þær verða áfram í heilbrigðisráðuneytinu. En mín persónulega skoðun er sú að slysatryggingarnar hefðu átt að fylgja lífeyriskaflanum.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga færist yfir til félags- og tryggingamálaráðherra og er það fullkomlega eðlilegt og úrskurðarnefndin mun sinna öllum kvörtunum sem berast og snúa almannatryggingunum, öllum þáttum þannig að mér finnst þetta eðlileg ráðstöfun.

Varðandi það sem kemur fram í greinargerðinni um auknar áherslur á forvarnir og heilbrigða lífshætti þá vil ég fagna því að það skuli vera tekið fram í þessari greinargerð því mér finnst það mikilvægar áherslur sem lagðar eru þar og einnig að menn ætli að leita leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera. Mér finnst ekki síður að það ætti að nefna það hér að einfalda þurfi kerfið gagnvart almenningi. Síðan langar mig til að nefna það sem kemur hér fram um þjónustuna við aldraða þar sem þess er getið að heilbrigðisþjónustu við aldraða sé hægt að veita heim. Það er mjög mikilvægt að geta veitt heilbrigðisþjónustuna heim og vil ég ítreka það hér að ég tel mikilvægt að strax verði farið að vinna í því að framkvæma það sem stendur í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að stefnt verði að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga, vegna þess að við vitum að þar sem sveitarfélögin hafa tekið þetta yfir þá hefur öll þjónustan verið á einni hendi og bæði hefur það í för með sér hagræðingu og betri þjónustu fyrir aldraða þar sem slíku fyrirkomulagi hefur verið komið á eins og til dæmis á Akureyri, í Skagafirði, Hornafirði og á þeim stöðum þar sem hafa verið gerðir þjónustusamningar í þá veru. Ég tel því að það væri mjög til bóta í framhaldi af þessum breytingum að huga að þeim þætti.

Varðandi umræðuna um þessa nýju stofnun sem kveðið er á um hér og á að sinna sjúkratryggingaþættinum þá er auðvitað verið að sinna honum í dag innan Tryggingastofnunar þannig að það er ekkert óeðlilegt að þegar Tryggingastofnun færist yfir í félagsmálaráðuneytið þá færist sá verkþáttur yfir á aðra hendi, þ.e. verði áfram í heilbrigðisráðuneytinu.

Varðandi breytingarnar á almannatryggingakerfinu þá kemur fram í greinargerð að þegar sé hafin vinna til að einfalda kerfið og það verði hvetjandi til tekjuöflunar og sparnaðar. Ég fagna því þar sem kerfið er mjög letjandi í dag og mikilvægt er að fara í þá vinnu og ég veit að hún er komin á góðan skrið hjá hæstv. félagsmálaráðherra sem er að undirbúa sig undir að taka yfir málaflokkinn.

Öldrunarmálin sem færast til félagsmálaráðuneytisins, þ.e. hjúkrunarheimilin færast að megninu til til félagsmálaráðuneytisins. Ég tel það vera fullkomlega eðlilega og góða ráðstöfun því hjúkrunarheimili er heimili og það að verða gamall er ekki sjúkdómur. Það er eðlilegur gangur lífsins. Ég vil minna á að einungis 7% aldraðra eru sjúklingar. Hjúkrunarheimili eru heimili einstaklingsins. Það kom reyndar fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að þær hjúkrunardeildir sem heyra undir heilbrigðisstofnanir munu áfram heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Það verður að skoða það í framhaldinu hvort svo verði áfram í framtíðinni í ljósi þess að þetta eru heimili fólks. Það verður þá skoðað síðar. Hjúkrunarheimilin færast sem sagt yfir til félagsmálaráðuneytisins og ég tel það mjög jákvætt. Framkvæmdasjóður aldraðra flyst þangað einnig og hann mun áfram sinna uppbyggingu öldrunarþjónustu og auðvitað er maður mjög sáttur við þá ráðstöfun og sérstaklega þá breytingu sem orðin er á framkvæmdasjóðnum þar sem allur sjóðurinn fer í uppbyggingu eins og upprunalega var meiningin en horfið frá þeirri ráðstöfun sem tíðkaðist hjá síðustu ríkisstjórn að setja ýmsan annan kostnað yfir á framkvæmdasjóðinn. Það er liðin tíð.

Varðandi daggjöldin og skiptingu þeirra þá held ég að það ætti ekki að vera neitt vandkvæðum bundið þó að daggjöldin komi úr tveimur áttum og þau skiptist yfir í heilbrigðisþáttinn og svo félagslega þáttinn. Þetta kom aðeins til umræðu í andsvörum áðan. Ég held að það væri alveg fullkomlega eðlilegt. En ég mundi vilja sjá það gerast á næstu árum að fyrirkomulaginu á greiðslu fyrir dvöl á hjúkrunarheimili verði breytt og hafður verði sami háttur á og er gagnvart fötluðum sem eru á sambýlum þannig að aldraðir geti haldið reisn sinni og þurfi margir hverjir sem ekki hafa úr miklu að spila að fá vasapeningana sem eru smán og í rauninni til skammar í okkar velferðarsamfélagi og ljóður á okkar löggjöf.

Mig langar að nefna líka sjúklingatrygginguna. Hún verður að sjálfsögðu áfram undir heilbrigðisráðuneytinu og tel ég það fullkomlega eðlilega ráðstöfun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég á sæti í hv. félags- og tryggingamálanefnd þannig að ég mun koma að málinu þar. Ég geri ráð fyrir að sú nefnd fái þetta mál til umsagnar. Ég fagna þessari niðurstöðu í málinu, þ.e. hvernig verkaskiptingin kemur fram í þessu frumvarpi og tel að það verði bæði þeim sem þurfa að njóta þjónustunnar og þeim sem veita hana til góðs.