135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:19]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir í dag er í mínum huga afar mikilvægt. Með því er staðfest sem fram kom við myndun nýrrar ríkisstjórnar, að málefni aldraðra, Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrismálin flyttust frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Það er ljóst að þegar um svo umfangsmiklar breytingar er að ræða, kannski þær umfangsmestu sem gerðar hafa verið í Stjórnarráðinu frá upphafi, verður að vanda vel til verka. Ég tel að frumvarpið sem hér er lagt fram staðfesti slík vinnubrögð. Margir sérfræðingar hafa komið að vinnunni og nú liggur fyrir niðurstaða.

Það þarf vissulega þor til að ráðast í svo umfangsmiklar breytingar sem hér er kveðið á um. Menn þurfa að vera sannfærðir um að breytingarnar styrki stöðu málaflokkanna þannig að þeir þjóni fólkinu betur. Þessar breytingar eru í samræmi við áherslur sem fram hafa komið í fjölmörgum ályktunum Samtaka eldri borgara og ég finn það á forsvarsmönnum lífeyrisþega að þeir eru reiðubúnir að vinna með félagsmálaráðuneytinu að þeirri stefnumótun og uppbyggingu sem fram undan er.

Frá 1. janúar 2008 tekur félags- og tryggingamálaráðherra við yfirstjórn lífeyristrygginga og Tryggingastofnunar ríkisins og einnig færist ábyrgð og framkvæmd laga um félagslega aðstoð til félags- og tryggingamálaráðherra. Varðandi málefni aldraðra mun þjónusta við aldraða, önnur en heilbrigðisþjónusta, þar með talin yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, færast til félags- og tryggingamálaráðherra frá 1. janúar 2008 og þar með uppbygging nýrra hjúkrunarrýma. Þessi stefnumörkun endurspeglar það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kalli á heilbrigðisþjónustu heldur almenn öldrunar- og umönnunarþjónusta. Fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður áfram varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu svo sem dvalar-, dagvistar- og hjúkrunarheimila.

Með breytingu á verkefnatilfærslu mun öll þjónusta við aldraða önnur en heilbrigðisþjónusta og stefnumótun í þessum ört vaxandi málaflokki verða á sama stað og sambærileg þjónusta við aðra þjóðfélagsþegna þessa lands. Í þessu felst að mínu viti skýr yfirlýsing og löngu tímabær viðurkenning á því að öldrun sé ekki sjúkdómur heldur eðlilegur hluti af lífi hvers manns. Það er mér mikið tilhlökkunarefni að fá tækifæri til að taka til hendinni í þessum mikilvæga og ört vaxandi málaflokki út frá þessari grunnforsendu í góðri samvinnu við hagsmunasamtök aldraðra víða um land. Vissulega er af ýmsu að taka og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að myndarlega verði haldið á þeim málum.

Ég vil vísa í skýrslu sem ég hef undir höndum varðandi þær breytingar sem ég nefndi, sem kemur m.a. inn á viðurkenningu á því að öldrun sé ekki sjúkdómur, með því að flytja málaflokkinn yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Skýrslan var gerð árið 2002, um málefni aldraðra Horft til framtíðar, eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur. Þar segir hún, þegar hún hefur lýst breytingu á greiðslufyrirkomulagi, með leyfi forseta:

„Þetta greiðslufyrirkomulag gerir ráð fyrir því að dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra verði ekki skilgreind sem heilbrigðisstofnanir heldur heimili og að greiðsla fyrir dvöl og þjónustu endurspegli réttindi og skyldur íbúans eins og þegar hann bjó á eigin heimili áður en til flutnings á dvalar- og hjúkrunarheimili kom.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Í langtímaumönnun felist því þjónusta og umönnun úti í samfélaginu hvort heldur er í eigin eða leiguhúsnæði, þjónustuíbúðum eða vernduðum leiguíbúðum sveitarfélaga svo og þjónusta og umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þjónusta við aldraða verður þannig samfelld og heildstæð hvar sem hún er veitt hverju sinni. Fjárhagsleg ábyrgð og greiðslufyrirkomulag þjónustunnar verði ekki til þess að rjúfa þá samfellu.“

Þarna er horft út frá nýrri sýn á uppbyggingu í málefnum aldraðra sem er mér mjög að skapi. Síðar í skýrslunni er lagt til, með leyfi forseta:

„Að láta dvalar- og hjúkrunarheimili í ríkari mæli en nú er endurspegla og vera í reynd venjulegt heimili fólks og skapar nánari tengsl við sambærilega þjónustu úti í samfélaginu.“

Margt fleira í þessari ágætu skýrslu væri ástæða til að lesa upp en ég læt þetta nægja að sinni.

Bættur hagur aldraðra og öryrkja er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Vinna við þetta verkefni er í fullum gangi og þær breytingar sem hér er mælt fyrir eru hluti af umbótum á stjórnkerfinu til að ná betur utan um málefni þessara hópa og velferðarmálin í heild. Í breytingunni felst m.a. að gert er ráð fyrir að almannatryggingamál og aðrar bótagreiðslur sem hafa að markmiði að tryggja afkomu fólks verði á ábyrgð félagsmálaráðuneytis.

Ég fagna, virðulegi forseti, mjög þessum breytingum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að almannatryggingaþátturinn ætti heima í félagsmálaráðuneytinu. Hið sama á við um málefni aldraðra og hef ég margsinnis á umliðnum árum látið það koma fram í þessum þingsal.

Eins og kunnugt er hefur ný ríkisstjórn sett málefni aldraðra í forgang. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á að styrkja stöðu þessa hóps. Þar er að finna metnaðarfull og vel afmörkuð markmið og á Íslandi blasa við okkur verkefni sem eru að nokkru leyti hliðstæð úrlausnarefnum annarra vestrænna þjóða. Þar vísa ég fyrst og fremst til þeirra breytinga sem eru að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar, við lifum sífellt lengur, erum betur á okkur komin en nokkru sinni fyrr og hlutfall eldri borgara verður sífellt stærra. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni gera mannfjöldaspár ráð fyrir að álíka margir fæðist hér á landi árið 2045 og fæddust árið 2005 en að fjöldi aldraðra u.þ.b. tvöfaldist á sama tímabili. Með öðrum orðum, fæðingum fjölgar ekki hér á landi á næstu 40 árum en þeim sem ná 67 ára aldri fjölgar um helming og samsetning þjóðarinnar mun því gjörbreytast á þessu tímabili. Ég tel að stjórnvöld eigi að bregðast við þessari staðreynd með því að tryggja fjölbreytt og nútímaleg búsetuúrræði þar sem mannréttindi eru í forgangi. Það er sárt að heyra sögur af fólki sem er aðskilið eftir áratuga sambúð þar sem kerfið býður ekki upp á ásættanlegar lausnir.

Ég mun láta skoða hvort ekki sé rétt að endurmeta greiðslufyrirkomulag þeirra sem dveljast á hvers kyns þjónustustofnunum aldraðra þannig að horfið verði frá fyrirkomulagi svokallaðra vasapeninga yfir í eðlilegt greiðslufyrirkomulag. Mér hafa borist fréttir af því að þar sé víða pottur brotinn og þetta vil ég skoða sérstaklega. Við hljótum að geta endurmetið á hverjum tíma hvort endilega eigi að halda í úrelt fyrirkomulag sem fólkið sjálft er ósátt við. Ég á einkum við að gerðar verði ráðstafanir þannig að lífeyrisþegar sem kjósa að búa á stofnun haldi í meira mæli fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Langir biðlistar eftir hjúkrunarrýmum sýna að mikið vantar upp á fullnægjandi búsetuúrræði og þjónustu við eldri borgara. Sumir ganga svo langt að fullyrða að við séum mörgum árum á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum þegar búsetuúrræði eru annars vegar. Við eigum að horfa til þess að sem best er gert.

Mörg sveitarfélög hafa þróað samþætta þjónustu og við eigum að sjálfsögðu að byggja á því sem er til fyrirmyndar þótt vissulega sé erfitt að byggja upp jafngóða þjónustu um allt land. Við þurfum líka að skoða lausnir sem eru raunhæfar í hinum dreifðu byggðum. Víða hafa heimamenn leyst flókin viðfangsefni innan þjónustunnar með miklum sóma. Ég held, virðulegi forseti, að við hljótum að stefna að því fyrr en síðar að flytja málefni aldraðra til sveitarfélaga. Þetta er nærþjónustuverkefni sem á heima hjá sveitarfélögunum. Sveitarfélögin hafa sjálf lagt áherslu á það og ríkisvaldið einnig. Það er stefna núverandi stjórnarflokka að svo verði gert, að flytja bæði málefni aldraðra og fatlaðra yfir til sveitarfélaga.

Stefna nýrrar ríkisstjórnar er skýr og í stjórnarsáttmálanum segir að hraðað verði uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og einbýlum fjölgað, sólarhringsþjónusta verði efld og einstaklingsbundin þjónusta aukin. Þetta eru háleit markmið en það er kominn tími til að taka á þessum málum af fullri alvöru og einurð.

Gagnrýnt hefur verið að stjórnsýslan að því er varðar málefni aldraðra sé of flókin og að rangt sé að líta svo á að einstaklingur sem náð hafi 67 ára aldri verði sjálfkrafa skjólstæðingur heilbrigðisþjónustunnar, eins og ég nefndi áðan. Hagsmunasamtök aldraðra hafa ítrekað hvatt til þess að málaflokkurinn í heild verði fluttur til félagsmálaráðuneytisins og að hluta til sveitarfélaga. Nú er unnið á grundvelli þess.

Hvort sem um er að ræða aldraða eða unga spyr enginn hver veitir þjónustuna heldur hvort hún sé fyrir hendi og hve góð hún er. Við eigum að taka fullt tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið undanfarin ár og áratugi. Í stjórnarsáttmálanum segir að stefnt skuli að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga og er það vel.

Ég vil í lokin segja, virðulegi forseti, að norrænn samanburður bendir til þess að Íslendingar séu eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða í uppbyggingu fjölbreyttra búsetu- og þjónustuúrræða fyrir aldraða og dvalarheimili og mörg hjúkrunarheimili hér á landi byggist á forsendum sem ekki samrýmast nútímalegum kröfum um mannréttindi og einstaklingsfrelsi. Við verðum að byggja á nýrri sýn og það er ásetningur minn að með þeim hætti verði tekið á þessum málum.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gert ítarlega grein fyrir meginefni þessa frumvarps. Ég tel að ekki þurfi að fara ítarlegar yfir það en hæstv. heilbrigðisráðherra gerði ágætlega. Ég vil þó ítreka þá breytingu sem verður 1. janúar 2008 að yfirstjórn lífeyristrygginga og Tryggingastofnun ríkisins fara til félagsmálaráðuneytis. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um víðtækar umbætur í lífeyristryggingum og er undirbúningur þeirra breytinga þegar hafinn í félagsmálaráðuneytinu. Annars vegar er þar um að ræða breytingar sem þurfa að koma fljótt til framkvæmda. Ég vænti tillagna þar um innan skamms og vona að þær geti komið til framkvæmda á næsta ári. Hins vegar þurfum við að horfa til lengri tíma og huga að uppstokkun þessa mikilvæga réttindakerfis frá grunni. Sú endurskoðun er orðin löngu tímabær enda þjóðfélagsbreytingar miklar og lífeyriskerfið hefur ekki fengið þá athygli sem það hefði átt skilið á uppgangstímum undanfarinna ára. Vonir mínar standa til að heildarendurskoðun þess kerfis verði lokið á næsta ári.

Hæstv. forseti. Frumvarp hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra felur í sér miklar og afar mikilvægar breytingar á stjórnkerfi ríkisins. Það felur einnig í sér skýr skilaboð núverandi ríkisstjórnar um breyttar áherslur í velferðarmálum á Íslandi. Við í félagsmálaráðuneytinu höfum tekið til við undirbúning þess að taka á móti þessum mikilvæga og spennandi málaflokki og erum albúin að taka á þessum málum þegar frumvarpið verður samþykkt.