135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:31]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum með frumvarp um tilfærslu á verkefnum milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Í umræðunni hingað til hefur kannski fyrst og fremst verið rætt um formið og skipulagið en það sem auðvitað skiptir mestu máli er hvort breytingin kemur að gagni fyrir einstaklingana og þá þjónustu sem við viljum veita í gegnum þessi ráðuneyti eða undir stjórn þeirra og það er kannski það sem við þurfum að hafa til grundvallar þegar við metum hvort um skynsamlegar breytingar sé að ræða eða ekki.

Það er leitt að meginumræðan ætli að hefjast á því það sé rætt um hvaðan hugmyndirnar berast vegna þess að mér finnst það skipta meginmáli að við leitum sameiginlega að bestu lausnum og þurfum þá ekki að ræða hvort hugmyndin sé frá einum eða öðrum, frá vinstri eða hægri flokki. Við hljótum að vera fær um að geta lagt á það mat hvort þær tillögur sem hér koma fram séu skynsamlegar eða ekki.

Í kosningabaráttu fyrr á þessu ári og í allri umræðu undanfarinna vikna og mánaða hafa lífeyristryggingamálin og almannatryggingarnar almennt verið mikið til umræðu og ekki hvað síst kjör aldraðra og öryrkja og einnig biðlistar á heilbrigðisstofnunum, mál sem er mjög brýnt að við leysum á kjörtímabilinu og sem allra fyrst. Við erum að búa til tæki til að reyna að taka á þessum málum með skilvirkum hætti og til að reyna að ná þar árangri.

Við höfum fengið ótal dæmi í þessari umræðu um fólk sem hefur fengið endurkröfur frá Tryggingastofnun, þar sem menn hafa orðið að endurgreiða vegna þess að þeir hafa ekki skilað tekjuáætlunum eða tekjur hafa breyst. Fólk hefur fengið ótal skerðingar og breytingar og það eru dæmi um óvæntar tekjur jafnvel vegna dómsmála þar sem einstaklingar hafa unnið dómsmál gagnvart lífeyrissjóðum og hafa því fengið óvæntar tekjur, jafnvel upp á hundruð þúsunda, 400–500 þúsund og það er nánast allt gert upptækt í því kerfi sem við búum við í dag.

Makatengingin hefur þau áhrif að það getur verið erfitt að áætla tekjur fólks og ef makar hækka í tekjum þá koma fram ýmsar skerðingar, hlutir sem við getum varla talist vera fullsátt við. Á sama tíma hafa lífeyrissjóðirnir líka verið að skerða greiðslur sínar eins og við höfum fylgst með í umræðunni en ef ég man rétt þá fengu rúmlega 1.700 lífeyrisþegar endurkröfu frá lífeyrissjóðnum eða raunar lækkun á greiðslum frá lífeyrissjóðum sínum og færðust þannig að vísu að litlum hluta yfir á Tryggingastofnun. Þessir einstaklingar sem síst máttu við því hafa því lent í skerðingum sem við getum ekki annað en harmað.

Staðreyndin er nefnilega sú að það hafa verið í gangi býsna ólík kerfi þar sem rekast á atvinnutekjur, skattar, tryggingabætur og greiðslur úr lífeyrissjóðum. Tilgangurinn með uppstokkuninni og þeim verkefnum sem fram undan eru hjá ríkisstjórninni er einmitt að taka á þessu og breyta þannig að kerfið verði skilvirkara og gagnist fyrst og fremst þeim einstaklingum sem þurfa á þjónustunni að halda og öllum þeim öldruðu og öryrkjum sem eiga þann sjálfsagða rétt að fá bætur úr samfélagssjóðum okkar. Með þessu frumvarpi eru gefin um þetta klár fyrirheit og vísað þar til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, við ætlum okkur að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja, við ætlum að einfalda almannatryggingakerfið eins og við segjum oft. Hæstv. heilbrigðisráðherra skýrði það ágætlega í kynningarræðu sinni að kannski erum við fyrst og fremst að tala um það að einfalda viðmótið, aðkomu einstaklingsins að kerfinu þannig að menn geti fengið þjónustuna án þess að þurfa að fara á marga staði eða leita í mörgum reglugerðum og formum til að sækja rétt sinn. Þetta er það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og skiptir gríðarlega miklu máli.

Það sem skiptir okkur líka miklu máli er að í allri þessari vinnu verði staðið við þau fyrirheit sem gefin eru af hæstv. ríkisstjórn, að jafnréttismálin verði höfð að sjónarmiði og allir fái jafnan aðgang að þjónustunni óháð efnahag.

Það hefur verið farið ágætlega yfir þessar breytingar og hvað þær fela í sér þar sem áherslurnar eru á að breyta þeirri hugsun að litið sé á málefni aldraðra og þá þjónustu sem aldraðir fá á sínum efri árum eins og um sjúkdóm sé að ræða heldur sé litið á hana sem sjálfsagða þjónustu sem eldri borgarar eða aldraðir, jafnt og aðrir eigi rétt á ef þeir þurfa á að halda, að við búum þeim búsetuskilyrði og þjónustu sem er þeim sæmandi eða réttara sagt, ríki og sveitarfélögum sæmandi. Þess vegna er líka verið að færa málaflokkinn á milli ráðuneyta, til að gefa þessi ákveðnu skilaboð um að við viljum greina þarna á milli, allir eiga aðgang að heilbrigðiskerfinu, að njóta þjónustu þar, og geta sótt hana hvort sem þeir búa á hjúkrunarheimilum, inni á sínum eigin heimilum eða í þjónustuíbúðum og að öðru leyti njóti þeir almennra lausna í sambandi við búsetu og þjónustu frá sveitarfélögum og ríki í gegnum félagsmálaráðuneytið.

Það þarf í sjálfu sér ekki að fylgja þessu mikið meira eftir. Þetta er markmið um að bæta þjónustu og ég mun fylgjast með því að þetta fái góða umfjöllun í nefnd og ég ætla að óska eftir því við hæstv. heilbrigðisráðherra að hann geri þá tillögu að málið komi beint til félags- og tryggingamálanefndar um leið og það fer í heilbrigðisnefnd þannig að við getum hraðað umfjöllun um málið og tryggt að við fáum sem fyrst góða niðurstöðu.