135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:38]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum við 1. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra.

Hæstv. forseti. Þetta er svokallaður bandormur sem nú liggur fyrir hv. Alþingi til afgreiðslu í framhaldi af þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að breyta verklagi og færa málaflokka á milli ráðuneyta. Ég verð að segja að margt af því sem nú hefur komið fram og breytingar milli ráðuneyta hefur mér fundist vera frekar hentistefna heldur en vel ígrundaðir flutningar og ég vona að nefndir Alþingis sem fjalla um viðkomandi bandorma fari vel yfir og reyni að sjá hvernig breytt starfsemi muni skila betri árangri og betri þjónustu og a.m.k. íhugi það hver tilgangurinn sé með flutningnum. En hvað þetta frumvarp varðar er ég sannarlega sammála þeim breytingum, þ.e. að færa lífeyrisgreiðslur til félagsmálaráðuneytis, sem þar koma fram. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum haft þetta sem hluta af stefnu okkar í heilbrigðismálum, að það beri að stefna að því að skilja þarna á milli eins og lagt er til í þessu frumvarpi þannig að lífeyrisgreiðslurnar, málefni aldraðra fari yfir til félagsmálaráðuneytisins og sjúkratryggingar og sjúklingatryggingarnar verði hjá heilbrigðisráðuneyti eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Það er rétt sem hér hefur margkomið fram að öldrun er ekki sjúkdómur. Öldrun er eðlilegur gangur lífsins og margir sem komnir eru á efri ár eða hinn lögboðna eftirlaunaaldur, eldri en 67 ára, eru hreinlega bæði sprækari og hraustari en þeir sem yngri eru. Það er því ekki alltaf aldurinn sem segir til en það má búast við því að eftir því sem fólk eldist þurfi það meiri stuðning þótt ekki sé endilega um sjúkraþjónustu eða læknisþjónustu að ræða. Og þar sem þjóðin er að eldast og innan fárra ára verður hér hærra hlutfall aldraðra en er í dag þá ber okkur auðvitað að undirbúa þann tíma og búa þeim öldruðu betri lífsskilyrði í framtíðinni en þeir búa við í dag, bæði hvað varðar kjör, ekki síst kjör en ekki síður allt annars konar þjónustu en við höfum byggt upp. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra að við erum áratugum á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað varðar hugsunarhátt og þjónustu við aldraða. Ég vil sérstaklega óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með þessar breytingar því að þessi skipting milli félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins er ekkert ný af nálinni en það hefur þurft kjark til að fara í þessa skiptingu og þetta kostar mjög mikla vinnu og ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að óska félagsmálaráðherra til hamingju með þennan árangur og veit og treysti því að hæstv. ráðherra mun gera það sem í hennar valdi stendur til að þetta gangi eftir að öllum öðrum ólöstuðum. Þetta vil ég að hæstv. félagsmálaráðherra fái að heyra.

Til viðbótar nefndi hún í ræðu sinni að hún vilji að það verði skoðað hvort sá fornaldarháttur sem nú er hafður á hvað varðar vasapeninga til þeirra sem dvelja á dvalarheimilum, þar sem aldraðir fái vasapeninga, hverfi ekki og breytist í samræmi við búsetuúrræði fatlaðra og aldraðir haldi fjárhagslegu sjálfstæði eins og aðrir þó að þeir þurfi á dvalarheimilisþjónustu að halda.

Markmið ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru björt og góð en það hafa markmið fyrri ríkisstjórnar líka verið en það hafa liðið heilu kjörtímabilin án þess að sést hafi í efndir. Við viljum því sjá að þessu verði komið á hið fyrsta, að unnið verði markvisst að því sem hér var nefnt og er í stjórnarsáttmálanum um að reisa 400 hjúkrunarpláss, að koma á öflugri heimahjúkrun og hafa sólarhringshjúkrun. Til þess að það gangi eftir þarf að tryggja að t.d. heilsugæslan, svo lengi sem hún hefur heimahjúkrun á sinni könnu og ef þau markmið eiga að ganga eftir að hægt sé að veita sólarhringsþjónustu, fái umtalsvert meira fjármagn en hún fær í dag því þetta kostar. Ég vil bara minna á það.

Hugmyndafræðin sem hér liggur að baki varðandi þjónustu við aldraða er að það sé nærþjónusta og sveitarfélögin sinni henni. Þótt ekki sé tekið það skref hérna að færa alfarið málefni aldraðra yfir á sveitarfélögin þá er sú hugmyndafræði í bakgrunninum. Það er ljóst að sveitarfélögin munu taka á sig meiri þjónustu og reyna að bjóða upp á fjölbreyttari búsetuskilyrði en boðið er upp á í dag. Enn og aftur vil ég minna á að það þarf að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna hvað varðar breytingu á þjónustu við aldraða. En ég styð það sannarlega.

Hvað varðar svo frumvarpið sjálft ætla ég nú að láta duga að lýsa því yfir að almennt er ég sammála þessari skiptingu. Á vordögum voru gerðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu sem flestar voru í þá átt að færa ábyrgðina yfir á heilbrigðisráðherra varðandi stefnumótandi ákvarðanir. Það eru ótal ákvæði í núgildandi lögum um reglugerðarákvæði þar sem valdið er fært til ráðherra, yfir í reglugerðarformið, útfærslan á þeim markmiðum sem sett eru í lögunum.

Þetta er í sjálfu sér í lagi, þ.e. veldur hver á heldur. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stóðum ekki gegn þessum breytingum en höfðum uppi varnaðarorð varðandi það að hafa svo mörg reglugerðarákvæði í lögunum því vald ráðherra yrði mjög mikið. Ef við fengjum últra hægri ríkisstjórn sem færi bara af fullri hörku í einkavæðingu undir fullum seglum þá yrði það mjög auðvelt með núgildandi heilbrigðislögum. Vald ráðherra er það mikið.

Ég held því ekki fram að sigla eigi þennan byr út í bláma hreinnar einkavæðingar. Það eru jú tveir flokkar í ríkisstjórn og ég vil trúa því að Samfylkingin haldi sig á miðjunni hvað þetta varðar. En kratisminn hefur oft tekið á sig ýmsar sveigjur, m.a. til hægri, sem við höfum séð gerast hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er mjög auðvelt inni í því lagaumhverfi sem við höfum núna að sveigjast yfir í hugsunina um kaup og sölu þegar við tölum um heilbrigðisþjónustuna. Þar kem ég að þessari 18. gr. sem ég tel að megi algjörlega missa sín. Við getum náð sátt um þetta frumvarp eins og það liggur fyrir og þá verkaskiptingu sem verið að ræða um á milli ráðuneytanna, staðið vel að henni. En hvað varðar 18. gr. þá mundum við fjalla um það frumvarp þegar það kemur fram á vorþinginu. Það er búið að lýsa því, hvaða hugmyndafræði liggur að baki. Þetta er í stjórnarsáttmálanum. Það vitum við. En að vera að setja slíkt bráðabirgðaákvæði inn í þetta lagafrumvarp, með þeim boðskap sem þar er og þeirri hugmyndafræði, finnst mér algjör óþarfi.

Ég óska eftir því að heilbrigðisnefndin fari vel yfir þetta bráðabirgðaákvæði og skoði vandlega hvernig tókst til með kerfin sem tekin voru upp í Bretlandi og Svíþjóð. Þau eiga hafa gengið vel en við þurfum að skoða það vel hvort sú sé raunin í dag. Hvaða lærdóm hafa þær þjóðir dregið af því að taka upp þetta kerfi, um að kaupa og selja þjónustu. Við megum a.m.k. ekki taka upp einhverjar blindar kenningar sem hugmyndafræðilega geta verið góðar en hafa hugsanlega ekki gengið vel eftir. Þessi grein finnst mér vera tímaskekkja og ég tel að hún eigi hreinlega að birtast í sérstöku frumvarpi þótt hún sé boðuð hér.

Hugsunin á bak við 18. gr. er flestum okkar nokkuð framandi, sérstaklega þeim, eins og mér sjálfri, sem hefur unnið við hjúkrun í mörg ár. Auðvitað eru allir meðvitaðir um kostnaðinn og að maður sé með dýra hluti í höndunum. Það þarf að vera ákveðin skilvirkni og góð þjónusta. En fram til þessa hefur það verið hugsun heilbrigðisstarfsmanna, að spara, fara vel með, nota ódýrari lyf sé það hægt, kaupa ódýrt inn en láta það ekki bitna á sjúklingunum. Það að setja krónur og aura, kaup og sölu, og láta það fylgja sjúklingnum er alveg ný hugsun sem ég gæti trúað að tæki bæði mig og fleiri tíma til þess að vinna með. Það er líka spurning um hvort við viljum alltaf láta stjórnast af kostnaðarvitund fremur en því að veita góða þjónustu en fara sparlega með og gera þjónustuna eins skilvirka eins og unnt er.

Ég vil nefna það við þessa umræðu að þessi hugmyndafræði, um að verðmerkja sjúklinginn, er okkur Íslendingum að minnsta kosti enn þá framandi. Ég ætla að vona að hún verði það í framtíðina líka þótt við séum öll meðvituð um að hægt væri að blása út kostnað við heilbrigðisþjónustuna út í það óendanlega séu engar hömlur á. Þjónustuna er alltaf hægt að bæta og alltaf hægt fara í meðferð bæði dýra og langa. Það má líka skoða það hvort meðferð sjúklinga sé stundum ekki bæði of dýr og taki of langan tíma. Það ætti þó ekki að skoða út frá krónum og aurum heldur út frá hinum mannlega þætti og mannlegri reisn, að menn fái að deyja eðlilegum dauðdaga.

Nú er ég kannski komin dálítið langt frá frumvarpinu sjálfu en þó ekkert lengra en í 18. gr. sem fjallar einmitt um kaup á þjónustu og kostnaðargreiningu, sem við erum komin með inn í sjálft kerfið. Landspítalinn er kominn langt með að greina kostnað eftir hverja aðgerð, eftir sjúkdómum og eftir meðferð samkvæmt þessari DRG-greiningu. Þar er allt tekið inn í, t.d. ef gerð er mjaðmaaðgerð þá hefur það verið nákvæmlega reiknað hvenær hann á að fara út. Það er búið að reikna þetta allt út. Sem sagt sjúklingur sem þarf mjaðmaaðgerð kostar þetta, þarf ákveðið marga klukkutíma, hvorki meira eða minna. Síðan kemur til hjúkrunarþyngd, kostnaður samkvæmt RAI-mati, sem er líka notuð í dag á hjúkrunarheimilum og til þess að auðvelda stjórnendum að kostnaðargreina sjúklinga sína, þ.e. hvar þeir liggja í hjúkrunarþyngd. Þá fylgja vonandi framlög á fjárlögum þeim kostnaði.

Ég vek athygli hæstv. heilbrigðisráðherra á því að í umsögn fjármálaráðuneytisins þá fer fjármálaráðuneytið yfir hvað sé í þessu frumvarpi fólgið en það kemur hvergi fram að það að fara í þessa miklu vinnu, að skipta Tryggingastofnun upp í tvær stofnanir, ég tala ekki um kostnaðinn sem hlýtur að vera við að undirbúa nýja stofnun. Slíkt kemur hvergi fram í umsögn fjármálaráðuneytisins. Mér finnst það galli á þessu frumvarpi og umsögn ráðuneytisins ekki trúverðug. Ég vona að það endurspegli ekki afgreiðslu fjárlaga, að það sé ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna þessara breytinga.