135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:29]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, um félagslega aðstoð, sjúkratryggingar og fleira sem snýr að endurskipulagningu Stjórnarráðsins sem ný ríkisstjórn boðaði í kjölfar síðustu alþingiskosninga.

Ég verð að viðurkenna að hv. þm. Árni Páll Árnason kveikti rækilega í mér í mjög fjörugri ræðu sinni áðan og finnst mér rétt að fara aðeins yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðis- og tryggingamálum.

Ég vil lýsa yfir stuðningi við það að kjaramál fatlaðra, lífeyrismálin, séu að flytjast úr heilbrigðisráðuneyti yfir í félagsmálaráðuneyti. Á þeim tíma sem ég vann í félagsmálaráðuneytinu voru uppi miklar raddir um að það bæri að gera þetta því oftar en ekki fannst mér sem hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri var að gera. Félagsmálaráðuneytið átti að sjá um réttindamál fatlaðra, búsetumál fatlaðra, lífskjarakannanir og fleira á meðan að heilbrigðisráðuneytið sinnti lífeyrismálunum. Ég fagna því í grundvallaratriðum að verið sé að færa þennan málaflokk á eina hönd.

Hins vegar finnst mér, hæstv. forseti, margt óljóst í þessu hvað ríkisstjórnin ætlar sér almennt séð í þessum málaflokki og það er enn margt óljóst þrátt fyrir að þetta frumvarp sé komið hér fram í þinginu og mörg álitaefni. Því finnst mér ekkert óeðlilegt að hv. þm. Þuríður Backman komi hér upp og spyrji ákveðinna spurninga hvað þessi mál áhrærir.

En eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, þegar fólk er kallað varðhundar óbreytts kerfis, eins og það sé eitthvert skammaryrði og sérstaklega þegar Samfylkingin talar þannig þá setur að manni ákveðinn ugg því að sjálfsögðu er rétt að ræða þetta mál út frá ákveðnum forsendum, út frá þeirri forsendu að Sjálfstæðisflokkurinn sagði eftir kosningarnar í vor að nú væri hægt að fara í hluti í heilbrigðis- og tryggingamálum meðal annars sem ekki hefði verið hægt að gera með okkur framsóknarmönnum. Síðan kemur hv. þm. Árni Páll Árnason hingað upp og í raun og veru gefur heldur betur í og gengur heldur lengra í sínum málflutningi en margir frjálshyggjumenn Sjálfstæðisflokksins. Því setur að mér mikinn ugg því mikið er fram undan í breytingum í þessu kerfi.

Hv. þm. Þuríður Backman nefndi það í sinni ræðu að sér fyndist reglugerðarheimildir ráðherra fullmiklar í dag. Miðað við þær yfirlýsingar sem við höfum heyrt úr ræðustóli Alþingis í dag þá er alveg réttmætt sjónarmið hjá hv. þingmanni að benda á að framkvæmdarvaldið hefur hugsanlega í dag fullrúmar heimildir til þess að fara á brautir einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu eins og boðað hefur verið.

Þá er vert, hæstv. forseti, að lesa fjárlagafrumvarpið og þær heimildargreinar sem þar er að finna, heimildargrein 7.5 þar sem fjallað er um að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. Samningar sem fela í sér fjárskuldbindingar skulu lagðir fyrir ráðherra heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.

Nú hefur þessi heimildargrein verið í fjárlagafrumvarpinu um árabil, trúlega frá árinu 1997 eða 1998. Ég hef vissar efasemdir um að þetta ákvæði eigi að vera í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum ársins 2008 í ljósi þeirra umræðna sem átt hafa sér stað um heilbrigðis- og tryggingamál. Þar hafa samfylkingarmenn, eins og hér rétt áðan, og sjálfstæðismenn, talað mjög mikið fyrir róttækum breytingum í heilbrigðis- og tryggingamálum og ef við erum að veita þær heimildir án þess að þær þurfi að fara fyrir Alþingi Íslendinga þá erum við á rangri braut, ef ráðast á í slíkar róttækar kerfisbreytingar eins og boðaðar hafa verið. Því höfum við framsóknarmenn rætt um það að við viljum leggja mikla áherslu á það við 2. umræðu fjárlaga að heimildarákvæði sem þetta verði fellt út.

Það er eðlilegur farvegur ef gera á róttækar breytingar á mikilvægum málaflokki eins og félagsmálum og heilbrigðismálum að þau mál og þær breytingar komi fyrir Alþingi í opinni lýðræðislegri umræðu þannig að kjörnir fulltrúar þurfi ekki að standa frammi fyrir orðnum hlut. Mér finnst, hæstv. forseti, ekkert óeðlilegt við að hv. þm. Þuríður Backman leggi áherslu á það hér í máli sínu. Menn eiga ekki að hræðast það að breytingar í heilbrigðis- og tryggingamálum komi inn í þingið.

Ég hefði haldið að lýðræðislega þenkjandi maður eins og hv. þm. Árni Páll Árnason mundi fagna því að kerfisbreytingar í félags- og heilbrigðismálum kæmu í þingið til umræðu og til efnislegrar meðhöndlunar í nefndum þingsins. Ég vona að við séum sammála um það og að ég hafi misskilið hv. þingmann hvað það varðar því við þingmenn viljum ekki að við framseljum allt það vald til framkvæmdarvaldsins eins og margt bendir til að gæti gerst verði til að mynda frumvarp til fjárlaga ársins 2008 samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Árni Páll Árnason hélt ræðu og hann er mælskur þingmaður. En innihaldið var nú kannski ekki alveg í samræmi við það sem samfylkingarmenn hafa sagt á undanförnum mánuðum og þá sér í lagi í aðdraganda kosninga. Einn stærsti málflutningur samfylkingarmanna þegar kom að tryggingamálum og kjörum aldraðra og öryrkja var að bæta þyrfti kjör aldraðra og öryrkja, það væri forgangsmál hjá Samfylkingunni. Síðan höfum við hérna frumvarp til fjárlaga ársins 2008 sem er fyrsta fjárlagafrumvarp Samfylkingarinnar þegar hún er komin í ríkisstjórn. Og hverjar eru forsendur fjárlaganna? Þær eru að kaup á almennum markaði muni hækka um 5,5%. En hver eiga kjör lífeyrisþega að verða? Lífeyrisgreiðslur eiga að hækka um 3,3% þannig að stefnumið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samkvæmt þessu frumvarpi sem þessir flokkar hafa lagt fram er að það eigi að draga í sundur, annars vegar hjá öldruðum og öryrkjum og hinum almenna launamanni. Þetta er staðreynd málsins nema eitthvað annað blasi við í 2. umr. fjárlaga.

Þetta er þvert á það sem samfylkingarmenn lögðu áherslu á í aðdraganda síðustu kosninga. Ég hélt að það væri áherslumál Samfylkingarinnar sérstaklega að bæta kjör aldraðra og lífeyrisþega. Nei. Lífeyrisgreiðslur eiga að hækka um 3,3%. En hver verður verðbólgan á næsta ári? Það er erfitt að spá um það. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að hún verði 3,3% sem er sama hækkun og lífeyrisþegar eiga að fá. Í besta falli verða því engar kjarabætur til lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja.

Reyndar eru spár greiningaraðila flestar á þann veg að verðbólgan verði meiri en 3,3%. Og hvað gerist þá? Þá verður kjararýrnun hjá öldruðum og öryrkjum í fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Er það nú boðlegt að þingmenn Samfylkingarinnar eins og hv. þm. Árni Páll Árnason komi hér upp, flytji góðar ræður, en svo þegar maður lítur til að mynda á það fjárlagafrumvarp sem hans ágæti flokkur hefur lagt fram kemur í ljós að efndir fylgja ekki orðum. Það er dapurlegt.

Kjör aldraðra og lífeyrisþega hafa batnað mjög mikið á síðustu tólf árum. Við hefðum viljað gera betur í þeim efnum. Við framsóknarmenn lofuðum miklu í aðdraganda kosninga enda ætluðum við okkur að standa við það. En kjör aldraðra og öryrkja rýrnuðu þó aldrei á milli ára. Það var umdeilanlegt hversu mikið ætti að hækka kjör aldraðra og öryrkja. Þetta er því mjög sérstakt, hæstv. forseti. Við eigum nú að eftir að hafa nægan tíma til að ræða þessi mál en þetta náttúrlega tengist áherslum ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum sem hv. þm. Árni Páll Árnason ræddi svo mikið um áðan.

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar áhyggjur af þessari kerfisbreytingu í ljósi þess að nú er kominn 15. nóvember. Það er mjög lítill tími til stefnu fram að áramótum og þetta eru gríðarlegar breytingar sem munu eiga sér stað í þessu stóra og umsvifamikla kerfi. Því óska ég ríkisstjórnarmeirihlutanum og framkvæmdarvaldinu góðs gengið við að innleiða þessar breytingar. Það verður ekkert auðhlaupið að því. Þetta er heilmikið verk. Menn skulu átta sig á því.

En í grundvallaratriðum er ég sammála því að færa kjaramál öryrkja undir félagsmálaráðuneytið þar sem önnur hagsmunagæsla fyrir þennan samfélagshóp hefur verið á undanförnum árum. Ég tel að þar sé um gott heillaskref að ræða. Ég vek athygli á því að það er lítill tími til stefnu. Ég vona að það verði vandað mjög til verka en bendi á það í ljósi ræðu Árna Páls Árnasonar áðan að trúlega verði verðbólgan meiri en 3,3% og þá munu kjör aldraðra og öryrkja skerðast að raungildi á næsta ári. Það er nú hin fögru fyrirheit Samfylkingarinnar í kjaramálum þessara hópa, aldraðra og öryrkja. Við hljótum að kalla eftir því hér, stjórnarandstaðan á þinginu, að menn sýni það í verkum sínum að mark sé takandi á digrum kosningaloforðum Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga.

Hæstv. forseti. Enn og aftur vil ég segja, sérstaklega í ljósi þess að við búum hér við mjög stóran ríkisstjórnarmeirihluta, að það er mjög mikilvægt að sá meiri hluti sem hér er við völd virði það við þingmenn stjórnarandstöðunnar að róttækar breytingar sem eiga sér stað á félags- og heilbrigðiskerfi landsmanna komi hér í opna lýðræðislega umræðu í þingnefndir þingsins en við afhendum ekki framkvæmdarvaldinu heimildir þar sem menn geta farið í mjög umsvifamiklar breytingar án þess að bera það undir Alþingi Íslendinga. Við alþingismenn eigum að standa vörð um þennan vettvang, Alþingi Íslendinga, þannig að þær breytingar sem um ræðir komi hér inn í þingið.