135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:44]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur hlustað á alla ræðu mína. Ég lýsti í grundvallaratriðum ánægju minni með þann verkefnatilflutning sem þarna á sér stað þannig að ég get með engu móti séð það hvernig ég var að gera lítið úr því máli sem við erum að ræða hér. Ég benti aftur á móti hv. þingmanni á það að trúlega verður það þannig að aldraðir og öryrkjar muni lenda í kjaraskerðingu á næsta ári, að kjararýrnun verði hjá þessum hópum sem ekki hafa nú breiðu bökin fyrir.

Ég verð að viðurkenna það sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar að það er alveg nýr sannleikur fyrir mér að fjárlagagerðinni hafi verið lokið 29. maí eins og hv. þingmaðurinn hefur haldið fram. Ég ætla bara að segja hv. þingmanni, þar sem ég er nú búinn að vera fjögur ár í fjárlaganefnd, að fjárlagafrumvarpið fer rétt í prentun í endaðan september og er að taka sífelldum breytingum fram að þeim tíma. Þetta vita allir.

Mér finnst það nú mikil hugprýði hjá hv. þingmanni að koma hér upp og segja að Samfylkingin hafi ekki haft nein áhrif á það fjárlagafrumvarp sem við ræddum í fyrstu umræðunni, (Gripið fram í.) að við séum að ræða um frumvarp gömlu ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Ég held að þetta sé nú efni í frekari umræðu hér í þinginu ef rétt reynist.

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega staðreynd að kjör öryrkja og aldraðra munu að öllum líkindum að óbreyttu skerðast á næsta ári þvert á loforð samfylkingarmanna. Mér finnst það ekki Samfylkingunni til sóma að segja að framsóknarmenn hafi ætlað að hafa þennan háttinn á í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008. Í fyrsta lagi tók ný ríkisstjórn við og ég hefði haldið að Samfylkingin vildi koma sínum áherslumálum inn í fjárlagafrumvarp 2008. En það er greinilegt að Samfylkingin hafði engin áhrif á það fjárlagafrumvarp sem við ræddum hér á fyrstu dögum (Forseti hringir.) þingsins. Það hefur hv. þingmaður staðfest og það er með ólíkindum, hæstv. forseti.