135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:58]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hver er heildarmyndin? Á þá ekki að taka tillit til skattleysismarka og fleiri þátta? Ég nefndi það hér að hækkun í lífeyrisgreiðslum væri 3,1% eins og stendur í forsendum fjárlaga. Við getum síðan nefnt aðra þætti sem bæta kjör þessa hóps.

Ég er hins vegar á því að það sem sést í fjárlagafrumvarpinu sé einfaldlega ekki í takti við það sem Samfylkingin mælti fyrir í aðdraganda síðustu kosninga. Hv. þingmaður benti réttilega á að síðasta ríkisstjórn gerði samkomulag við aldraða, sem einhverra hluta vegna varð svo ekki samkomulag af hálfu forustu aldraðra. En við töldum að við værum að gera góða hluti í því. Ég átti von á því að þegar Samfylkingin kæmi í stjórn mundu menn stíga lengri og stærri skref í þá átt að bæta kjör aldraðra eins og við framsóknarmenn hétum í aðdraganda síðustu kosninga. (Gripið fram í.) Sú er ekki raunin og hv. þm. Árni Páll Árnason vottar það hér og nú (Forseti hringir.) að Samfylkingin hafði engin áhrif á fjárlagagerð fyrir árið 2008.