135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:13]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er almennt viðurkennt að samráð framleiðenda eða dreifingaraðila á markaði, verðsamráð, markaðsskipting og annað samkeppnishamlandi samráð, sé einhver versta aðför gegn hagsmunum neytenda. Það höfum við almennt viðurkennt í löggjöf okkar, það er eitt af grunnstefjum samkeppnislaga í landinu. Hins vegar er það svo að ekki einungis er samráð liðið í landbúnaði milli afurðastöðva heldur er þar beinlínis að finna ákvæði sem leyfa slíkt samráð.

Árið 2006 setti Samkeppniseftirlitið fram álit í kjölfar máls Mjólku. Það verður að segjast eins og er að framganga afurðastöðva í mjólkuriðnaði gagnvart keppinautnum Mjólku var með endemum. Maður átti vart orð yfir því að sjá hvernig menn voguðu sér að hegða sér í því tilviki.

Hagsmunirnir eru ekki jafneinfaldir og ráða mátti af ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, að það sé eitt markmið búvörulaga að viðhalda óbreyttu ástandi í landbúnaði. Hér hljóta að þurfa að vegast á hagsmunir neytenda annars vegar og framleiðenda hins vegar. Ég vil vitna til þess að Samkeppniseftirlitið lagði ríkt á um að gerðar yrðu víðtækar breytingar á búvörulögum til að mæta þeim sjónarmiðum sem Samkeppniseftirlitið setti fram í því áliti.

Rétt er að minnast þess að Samkeppnisráð sendi árið 2002 frá sér tilmæli þess efnis að heildsöluverðlagning á búvörum yrði gefin frjáls svo fljótt sem auðið yrði. Frekar en að fara eftir því var gengið lengra í ógæfuátt með löggjöfinni frá 2004 sem nú stendur til að afnema að hluta til. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með því sé ætlunin að minnka afskipti ríkisvaldsins af framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og bregðast við athugasemdum Samkeppniseftirlitsins og er þar vísað til álits sem ég hef nefnt frá árinu 2006 þar sem því var beint til ráðherra að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um að brott falli 3. mgr. 13. gr. búvörulaga, sem heimilar verðtilfærslu afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sem er líklega alversta ákvæðið af mörgum vondum í umræddum lögum. Ég fagna því frumvarpinu sem skrefi í rétta átt. En ég vek athygli á því að í greinargerðinni segir m.a. að frá setningu laganna árið 2004 hafi átt sér stað mikil hagræðing og staða iðnaðarins í dag sé talin það stöðug að óþarft sé lengur að lögbinda undantekningu um verðtilfærslu og verðmiðlun frá samkeppnislögum.

Sem talsmaður almannahagsmuna gegn sérhagsmunum hlýt ég að kalla eftir því að lengra verði gengið í þessu efni. Ég hlýt að kalla eftir því að ráðherra beiti sér fyrir því að farið verði að áliti Samkeppniseftirlitsins í heild frá árinu 2006 og þar með talið að 71. gr. búvörulaga, sem heimilar samráð og samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði, verði afnumin.

Í ljósi þessarar umfjöllunar í greinargerð, í ljósi þess að nú hafa afurðastöðvarnar komið sér svo vel fyrir að ekki þurfi með sama hætti að tryggja forréttindastöðu þeirra, hlýtur maður að spyrja: Er ekki nóg komið? Er ekki tímabært að almannahagsmunir ráði nú framar afmörkuðum hagsmunum kerfisins? Ég kalla eftir því að metnaðarfyllri skref séu stigin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja að ég fagni frumvarpinu en það er ásættanlegt sem fyrsta skref.