135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek vissulega undir vangaveltur hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að samráð og slíkt eigi ekki að sjást hér á landi og sá er grundvöllur samkeppnislaga. Við eigum að leita allra leiða til að styrkja samkeppnislögin og efla samkeppniseftirlit á allan þann hátt sem okkur er mögulegt. Ég óskaði þess að Samkeppniseftirlitið hefði verið styrkt á sama hátt og Fjármálaeftirlitið var styrkt nú í haust.

Ástæðan fyrir því að þetta samkeppnishamlandi ákvæði var á sínum tíma sett inn í lögin var einfaldlega sú að því miður ríkti ekki óhindruð samkeppni á mjólkurmarkaðnum. Það má fullyrða að óhindruð samkeppni hafi ríkt varðandi flestar aðrar landbúnaðarafurðir. En því miður var það ekki á þessum markaði og í rauninni ríkti einokun og fákeppni.

Þetta erum við að berjast við í okkar litla landi og þess vegna voru þessi lög sett, einfaldlega til að mæta þeim ríku almannahagsmunum að afurðastöðvar séu úti um allt land og það sé þá einhvers konar samkeppni. Það má velta fyrir sér hvort niðurlagning þessa verðmiðlunargjalds komi til með að hafa í för með sér að nýjar afurðastöðvar komist ekki á laggirnar. Hvort einfaldlega sé búið að girða fyrir að samkeppni verði rík. En ég tek undir það sjónarmið að við eigum að efla samkeppnislög og samkeppniseftirlit.