135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:21]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sömu rök gilda um samkeppni á þessu sviði eins og öllum öðrum. Það er óhollt að loka menn inni í forréttindaástandi. Það er óhollt að veita mönnum þau starfsskilyrði að þeir þurfi ekki að óttast keppni frá öðrum.

Framganga afurðastöðvanna gagnvart Mjólku var með eindæmum. Hún var algjörlega ótrúleg. Það eru sporin sem hræða, hv. þingmaður. Það er þegar forréttindakerfi sem komið hefur verið á með þessum hætti beinlínis drepur af sér alla vaxtarsprota og skaðar með skýrum og beinum hætti hagsmuni neytenda af öflugri samkeppni.

Við búum við ríkari undanþágur frá samkeppnislögunum hvað afurðastöðvar í mjólkuriðnaði varðar en í Noregi og í Evrópusambandinu. Maður veltir því mjög fyrir sér við þær aðstæður sem nú eru hvort ekki sé lag til að losa um. Eru fyrir því einhver rök að viðhalda höftum sem eru úr öllum takti við það sem er að gerast í nágrannalöndum okkar og eru stórskaðleg fyrir neytendur?

Þessari herferð á hendur neytendum í landinu verður að linna. Við verðum að feta okkur í þá átt að ná sátt um framtíðarþróun landbúnaðar í sátt við neytendur í landinu. Grundvallaratriðið í því efni er að losa strax um forréttindastöðu afurðastöðvanna. Það á að verða fyrsta verkefnið.