135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:23]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Megintilgangurinn með setningu þessa samkeppnishamlandi ákvæðis var fyrst og fremst sá að styrkja stöðu neytenda. Það var einfaldlega þannig að einn eða tveir aðilar réðu markaðnum. Lögin voru sett á sínum tíma til að gæta að hagsmunum neytenda. Að sjálfsögðu má skoða þessi ákvæði en ég bið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vera fullviss um að hagur neytenda versni ekki við þessa tilfærslu.

Ég vil benda hv. þm. Árna Páli Árnasyni á að víða í Evrópu er staða landbúnaðarins mjög veik. Það veit hann vel. Það er hugsanlegt að lönd utan Evrópusambandsins geti framleitt landbúnaðarvörur á mun ódýrari hátt en gengur og gerist um alla Evrópu en þar ríkja takmarkanir. Öll Evrópulöndin vilja vernda landbúnaðinn og ég tel að við eigum að gera það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir byggðaþróun og hinar dreifðu byggðir landsins að við stöndum vörð um landbúnaðinn.

Ég held ekki að verið sé að skaða landbúnaðinn en ég hvet menn til að fara varlega. Ég vil líka benda hv. þm. Árna Páli Árnasyni á að nú er verið að jafna flutningskostnað, 150 millj. kr. fara eingöngu til Vestfjarða. En hvert á sá styrkur að renna? Til fyrirtækis sem hefur algjöra einokun (Forseti hringir.) á þeim markaði?