135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get kannski gert orð hv. þingmanns að mínum að það var lítið innihald í þessum orðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Enda er það svo með landbúnaðarstefnu Samfylkingarinnar að hún hefur ekki mikið inntak annað en að vita hvernig höggva megi niður félagslegar grunnstoðir íslensks landbúnaðar. Við heyrðum það svo rækilega áðan í málflutningi aðaltalsmanns Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum, Árna Páls Árnasonar, þar sem honum fannst að hér væri allt of skammt gengið í að höggva niður félagslegan grunn og félagslegar stoðir framleiðslu í mjólk og mjólkurvinnslu.

Ég verð að ítreka það, af því að hv. þingmaður velti fyrir sér forgangsröðun í landbúnaðarmálum, að þegar við horfum á forgangsröðun Samfylkingarinnar, ríkisstjórnar Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum, þá er þar brýnast að sundra landbúnaðarráðuneytinu, sundra grunnstoðum landbúnaðarins, tvístra skógræktinni upp í margar áttir, tvístra landgræðslunni, skólunum, rannsóknarstofnunum. Þetta er það brýnasta sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar telur að gera þurfi í landbúnaðarmálum. Númer tvö er að höggva niður tryggingu sem var fyrir því að ekki væri hægt að segja við mjólkurframleiðendur, hvort sem þeir eru á Barðaströnd, Rauðasandi eða á norðausturhorninu fjarri mjólkurstöðvum, að það væri of dýrt að sækja til þeirra mjólkina og þess vegna verði þeir að hætta. Hér var trygging fyrir því og hana er verið að höggva niður. Ég held að það sé ekki til bóta fyrir íslenskan landbúnað. (Forseti hringir.) Það getur vel verið að hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni finnist það vera það brýnasta sem gera þurfi.