135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er kominn í rökþrot og á flótta og veit nánast ekki til hvers hann er að fara í ræðustól, og að ég tali nú ekki um til að ræða um landbúnaðarmál. Ég ætla samt ekki að ætla honum það að hann viti ekkert um þau. En nálgun hans á málinu er með þeim hætti að ég er ekki viss um að hann eigi samleið með mörgum bændum í þeim efnum.

Hins vegar held ég að það þýði ekkert fyrir hv. þingmann að fara að draga í land í þessum efnum. Stefna Samfylkingarinnar hefur komið skýrt fram og kom mjög skýrt fram í máli talsmanns Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum sem talaði hér fyrst, Árna Páls Árnasonar. Honum fannst þetta allt of skammt stigið í að höggva niður félagskerfi landbúnaðarins, grunnstoðir þess og jafnframt í að höggva að þeirri félagslegu tryggingu sem neytendur hafa gagnvart framleiðslu á landbúnaðarvörum og fjölbreyttum landbúnaðarvörum, mjólkurvörum sem hér er um að ræða á tiltölulega litlum markaði, þar sem verið hafði heimild til þess að færa á milli vara og verðmiðla til þess að tryggja fjölbreytni gagnvart neytendum á tiltölulega þröngum markaði. Ég bendi á að neytendur hafa lýst yfir miklum stuðningi við — og ég vísa til skoðanakannana þar sem um 90% af þeim sem tóku þátt í skoðanakönnun Gallups á sl. ári vildu einmitt standa vörð um þessi gildi landbúnaðarins, framleiðsluöryggið, fjölbreytni í vöruúrvali. Það var einmitt þetta sem þeir vildu standa vörð um.

Þetta vilja talsmenn Samfylkingarinnar í landbúnaðarmálum höggva niður og ég er því ekki sammála.