135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra verður mjög tíðrætt um samkeppnismálin í þessu og ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi samkeppnistöðunnar. Ég vil þó slá varnagla við því að ætla að fara að stilla upp sérhverjum bónda sem samkeppnisaðila hverjum gegn öðrum. Samkvæmt mjólkursamningnum er ekki svo, heldur er litið á ákveðinn framleiðslupakka af mjólk sem eina heild. Þess vegna er það með takmörkuðum hætti sem hægt er að líta á að samkeppnin ein sér tryggi bæði eðlilega og farsæla framleiðslu eða vinnslu og dreifingu á svona litlum markaði eins og hér er.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það þyrfti að setja einhver mörk fyrir því hversu mjólkurbú eða mjólkurvinnslur megi vera margar, eða fáar réttara sagt, hér á landi til þess að ná þeim samkeppnisáhrifum sem hæstv. ráðherra er að tala um. Ég hef óttast þessa fækkun á mjólkurbúum og mjólkurvinnslum, bæði að það leiði til óhagkvæmni og það leiði líka til samþjöppunar á markaðnum sem sé mjög óheppilegt og þá gildi ekki þau lögmál sem hæstv. ráðherra er að tala um. Þegar horft er á þróunina til lengri tíma hlýtur maður að huga að því hvernig hún geti orðið. Burt séð frá því þó að þessi einstöku atriði hér passi akkúrat í dag, þá erum við að horfa á þróun sem að mínu viti getur leitt til fákeppni og beinlínis hálfgerðrar einokunar og þá gilda ekki þau samkeppnisatriði sem hæstv. ráðherra er að tala um, og viljum við það?