135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[19:59]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem þetta frumvarp felur í sér er m.a. það að nú er horfið frá því sem er í gildandi lögum um tiltekin atriði, t.d. verðtilfærsluna. Til þess að menn gætu viðhaft hér verðtilfærslu varð að kveða á um það í búvörulögum að þau sem sérlög mundu víkja til hliðar ákvæðum samkeppnislaga til þess að menn gætu í gegnum verðtilfærslusjóð og með verðtilfærslum innan fyrirtækja stillt af verði á einstökum vöruflokkum eins og ákveðið væri í verðlagsnefnd búvöru.

Nú er verið að hverfa frá þessum hluta búvörulaganna, þ.e. við erum ekki lengur með þá stöðu, verði þetta frumvarp að lögum, að þessi hluti búvörulaganna sé undanþeginn samkeppnislögum. Það hefur hins vegar ekkert með að gera það sem oft hefur verið rætt um í 71. gr. sem kveður á um almenna heimild fyrir afurðasölufyrirtækin, að vera vikið undan ákvæðum samkeppnislaganna. Þau geta að vísu ekki beitt markaðsráðandi stöðu sinni, það er auðvitað ekkert sem samkeppnislögin eða búvörulögin eða nein önnur lög heimila þeim að gera. Það var hins vegar á sínum tíma, árið 2004, ákveðið að undanþiggja þau samkeppnislögunum.

Ég hef út af fyrir sig enga sérstaka skoðun á því hversu mörg þessi bú eigi að vera. Við sjáum að niðurstaðan varð sú, til þess að reyna að draga úr tilkostnaði að stækka þessi bú. Ég held að það sé óumdeilanlegt að kostnaðurinn hefur minnkað í afurðasölufyrirtækjunum. Einn góðan veðurdag hljóta menn að ná einhverri niðurstöðu í þeim efnum. En þetta frumvarp hér er fyrst og fremst frumvarp um það að hverfa frá verðtilfærslu sem á að heyra sögunni til.