135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

uppfylling ákvæða í kaupsamningi Símans.

[15:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil leggja spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra sem yfirmann framkvæmdanefndar um einkavæðingu og spyrja sérstaklega út í þá ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra að leysa eigendur Símans, þ.e. fyrirtækisins Skipta ehf., undan því að uppfylla skýlausa kvöð kaupsamnings um fyrirtækið eins og framkvæmdanefnd um einkavæðingu gekk frá henni á sínum tíma og fjármálaráðherra staðfesti með undirritun sinni undir kaupsamninginn 5. júní 2005. Í kaupsamningnum er tekið af skarið um það að í síðasta lagi fyrir árslok þessa árs skuli fyrirtækið hafa selt ekki minna en að lágmarki 30% af hlutafé félagsins til almennra kaupenda og annarra fjárfesta og sömuleiðis skrá fyrirtækið í Kauphöll.

Nú bera menn fyrir sig að desembermánuður sé ekki heppilegur tími til að uppfylla þessi ákvæði kaupsamningsins sem legið hafa fyrir í meira en tvö ár, og sömuleiðis að þeir hafa gert tilboð í slóvenskt símafyrirtæki og það kunni að valda erfiðleikum við að upplýsa nákvæmlega um stöðu fyrirtækisins.

Þá hlýtur maður að spyrja: Hvaða fordæmi er verið að gefa með því að leyfa fyrirtækinu að falla frá skýlausum kvöðum í kaupsamningi sem legið hefur fyrir í á þriðja ár að ætti að uppfylla og í síðasta lagi að vera búið um áramótin? Að sjálfsögðu þýddi það ekki að fyrirtækið ætti ekki að fara að huga að þessum málum fyrr en í desember.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Telur hann þetta heppilegt fordæmi? Hvaða mark verður eftirleiðis tekið á skilmálum af þessu tagi ef fyrirtæki eru seld á svipuðum grunni og síðan ekkert með það gert? Mér sýnst að hér vaki aðallega fyrir eigendunum (Forseti hringir.) að þeir óttist að almenningur kunni að fá hlutina á óþarflega hagstæðu verki, þ.e. að þeir fái ekki nóg fyrir sinn snúð. (Forseti hringir.) Var leikurinn til þess (Forseti hringir.) gerður?