135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[15:17]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær kom fram í fjölmiðlum að hæstv. umhverfisráðherra ræddi um svokallað íslenskt ákvæði í Kyoto-bókuninni og af því tilefni vil ég gjarnan fá að eiga orðastað við hæstv. iðnaðarráðherra. Það má segja að fjórir lykilráðherrar komi að vinnslu íslenska ákvæðisins í Kyoto-bókuninni, hæstv. forsætisráðherra, umhverfisráðherra, utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra.

Það er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra er búinn að segja að hann vilji viðhalda íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni. Hæstv. umhverfisráðherra sagði á umhverfisþingi að við ættum ekki að biðja um undanþágur. Hæstv. umhverfisráðherra segir svo í gær í fjölmiðlum að engar forsendur séu fyrir því að ræða íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni núna og er þar af leiðandi á hröðu undanhaldi í málinu. Áður voru yfirlýsingarnar mjög skýrar hjá hæstv. umhverfisráðherra um að við ættum ekki að biðja um undanþágur en nú heitir það að það séu engar forsendur til að ræða þetta á þessu stigi.

Ég tel rétt að þingheimur fái að vita hvað hæstv. iðnaðarráðherra segir í þessu máli vegna þess að íslenska ákvæðið er mjög mikilvægt fyrir iðnaðinn. Það var erfitt að ná því fram á sínum tíma, það þurfti mikinn tíma til að upplýsa aðra umhverfisráðherra um stöðu okkar. Það er mjög sérstök staða hér á Íslandi.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra, í ljósi þess að hann ber mikla ábyrgð á iðnaði á Íslandi og íslensku samfélagi þar með, almennt hvort upp hafi komið einhverjir annmarkar sem valda því að ekki sé hægt að berjast áfram fyrir íslenska ákvæðinu og hvort hæstv. iðnaðarráðherra sé sammála því að ekkert eigi að ræða þessi mál, það séu engar forsendur fyrir því, séð í því (Forseti hringir.) ljósi að við þurfum að taka ákvörðun á næstu mánuðum um hvað við viljum.