135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[15:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður beinir til mín þeirri fyrirspurn hvort mér sé kunnugt um hvort einhverjir annmarkar hafi komið upp sem geri það að verkum að ekki sé hægt að slást fyrir íslenska ákvæðinu.

Svar mitt er alveg skýrt: Engir sérstakir annmarkar hafa komið upp sem gera það að verkum að ekki sé hægt að slást fyrir því. Ef hv. þingmaður hefur hins vegar fylgst með þeim umræðum sem hafa orðið á alþjóðavettvangi núna í aðdraganda Balí-fundarins veit hún örugglega jafn vel og ég að menn eru núna fyrst og fremst að velta fyrir sér töluvert öðrum og frábrugðnum leiðum sem byggjast ekki endilega á kvótum einstakra landa sem njóta sérstöðu, eins og Ísland vissulega gerir og ég er sammála hv. þingmanni um það, heldur reyna menn m.a. að ná utan um losun landa sem ekki hafa verið aðilar að þessum alþjóðlegu samþykktum.

Sú leið sem menn hafa rætt hvað mest í aðdraganda Balí-fundarins er svokölluð geiranálgun þar sem reynt er að ná utan um losun einstakra geira. Dæmi: álframleiðsla, sementsframleiðsla og stálframleiðsla. Menn nota gjarnan til viðmiðunar og til þess að skýra hvað átt er við þær aðferðir sem Evrópusambandið hefur ákveðið að fara varðandi flugmál, losun frá flugi.

Það sem þessi nálgun á þessu stigi hefur í för með sér er að það er hægt að ná miklu lengra inn í losun þróunarlandanna sem hingað til hafa heldur skirrst við að verða samferða Vesturlöndum og iðnríkjunum. Það er sú nálgun sem ég t.d. tók upp fyrir Íslands hönd á heimsorkuþinginu í Róm í síðustu viku og fékk býsna góðar undirtektir vegna þess að þetta er mál sem hefur verið í umræðu. Þetta er mál sem tekið var upp af fyrrverandi starfsmanni hv. þingmanns, Halldóri Þorgeirssyni, sem er forstöðumaður loftslagsskrifstofunnar í Bonn. Það gerði hann í opinberum fyrirlestri hérna þar sem hann hvatti (Forseti hringir.) íslensku ríkisstjórnina til að styðja frumkvæði af þessu tagi.