135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni.

[15:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég held að við öll sem erum hér inni séum sammála því að það er mjög mikilvægt að ná inn Kína og Indlandi, hvað þá Bandaríkjunum. Það er bara ekki það sem ég er að spyrja um hér, virðulegur forseti.

Hæstv. ráðherra kallar eftir minni ráðgjöf. Ég skal segja hver hún er. Ef það eru ekki annmarkar á því að berjast áfram fyrir íslenska ákvæðinu sem mér heyrist að hæstv. ráðherra hafi kveðið upp úr um að séu ekki, sem sagt ekki neinir tæknilegir annmarkar á því, eigum við að reyna að viðhalda ákvæðinu. Við eigum að vinna að því.

Þá verður hæstv. iðnaðarráðherra að ná því fram. Ég ráðlegg hæstv. iðnaðarráðherra að ræða við hæstv. umhverfisráðherra. Ég hlýt reyndar að túlka sem svo að hún sé á undanhaldi í málinu af því að það hét fyrir nokkrum vikum að við ættum ekki að sækjast eftir undanþágum en núna heitir það að það séu engar forsendur til þess að ræða málin. Ég ætla að ráðleggja hæstv. ráðherra að ræða við kollega sína í ríkisstjórninni til að ná þessu ákvæði fram.