135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

5. fsp.

[15:35]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka samgönguráðherra fyrir hans svör svo langt sem þau ná. Ég vil þó minna á í þessu sambandi að þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar, m.a. með mjög skýrum hætti á fundi í höllinni í Vestmannaeyjum þar sem hv. varaþingmaður Samfylkingarinnar og núverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra, Róbert Marshall, var fyrir svörum fyrir Samfylkinguna voru mjög skýr í þessum efnum, að miða ætti við sambærilega vegalengd á landi.

Þegar tekið er mið af flugfargjaldi milli Vopnafjarðar og Reykjavíkur er það ekki allsendis raunhæft. Ég tel að fjölskylda sem býr á Vopnafirði geti komist milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar þrátt fyrir þá miklu vegalengd sem þar er á sínum einkabíl fyrir minna fé en hægt er að fara þarna á milli. Það er líka rétt að minna á þau orð sem þingmenn Suðurkjördæmis fyrir Samfylkinguna — sem ég sakna að sjá ekki hér í salnum nú — hafa látið falla um þetta mál þar sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur sagt í þessum sölum (Forseti hringir.) að það þurfi að beita sér fyrir stórlækkun og hv. þingflokksformaður flokksins sagt að þetta væri „akút“ ástand.