135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

erfðafjárskattur.

206. mál
[15:41]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því í athugasemdum með þessu frumvarpi að um 1. gr. segir að raunin hafi orðið sú að ekki hafi verið unnt að innheimta eða leggja erfðafjárskatt á fasteignir hér á landi þegar arfláti, eins og það heitir, hefur verið búsettur erlendis. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi mat á því hvað sé um að ræða háar fjárhæðir sem ríkissjóður hafi þá orðið af vegna þess að lagaákvæðið dugði ekki til þess að leggja skattinn á og innheimta hann.

Mér finnst líka athyglisvert að það er niðurstaða ráðuneytisins á öllum breytingunum í þessu frumvarpi að ekki sé ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á skatttekjur eða útgjöld ríkissjóðs. Mig langar aðeins að forvitnast nánar um þessa hógværu umsögn og hvað sé að mati ráðherrans „ekki teljandi áhrif“.