135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[15:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki efni til annars en að taka þessu frumvarpi hæstv. ráðherra vel. Ég held að það megi kalla það ákveðið raunsæi að hætta nú því sem hefur verið í gangi að undanförnu, þ.e. að framlengja þessa tímabundnu lækkun olíugjaldsins um nokkra mánuði eða missiri í senn. Ekkert bendir til þess að þær aðstæður breytist á næstunni sem leiddu til þess í byrjun að menn sáu sig knúna til að veita þessa tímabundnu lækkun eða fara í hana vegna þess að annars hefði olían orðið allverulega dýrari en bensínið.

Vandinn er bara sá að þessi tímabundna lækkun sem dugði til þess að halda þarna örlitlum mun í byrjun gerir það ekki lengur og dísilolían er jafnvel dýrari svo nemur einhverjum krónum á lítra iðulega á útsölustöðum þessar vikurnar og verður það væntanlega áfram þó svo að þetta sé framlengt. Nú er að vísu vitnað til þess að þetta sé allt saman í endurskoðun í starfshópi hjá hæstv. ráðherra sem á að skila af sér einhvern tímann á næsta ári. En það gæti nú tekið sinn tíma að koma því saman og koma því þá í búning og hingað inn í þingið. Eiginlega er spurning mín til hæstv. ráðherra þessi: Væri ekki ástæða til að bæta þarna aðeins í og hafa þennan afslátt ívið meiri þannig að olíugjaldið yrði í mesta lagi 40 kr. jafnvel ekki nema 38 kr. eða svo, til þess að aftur myndaðist nokkurra króna munur þarna á milli sem alltaf var ætlunin að yrði til staðar og væri þá sú hvatning fyrir fólk að kaupa dísilbifreiðar eða dísilaflvélar sem ætlunin var að hafa innbyggða í kerfið?

Ég minni á að bak við lágu heilmiklar umræður á sínum tíma um að æskilegt væri að beina frekar akstri í þennan orkugjafa enda hefur Ísland skorið sig nokkuð úr hvað það varðar að dísilvélar hafa hér verið tiltölulega sjaldgæfar, að minnsta kosti í fólksbifreiðum. Með hliðsjón af þróun þessara mála líka hjá bílaframleiðendum þá held ég það sé sérstaklega óheppilegt að þetta skuli enn standa svona hér.

Nú hafa ýmsir framleiðendur náð mjög glæsilegum árangri í því að framleiða sparneytnar en býsna aflmiklar dísilvélar. Meðalstórir fjölskyldubílar eru hér í boði sem eyða um og jafnvel innan við fimm lítrum á hundraðið af dísilolíu en skila þó ágætis afli og eru öruggir og prýðilegir fjölskyldubílar. En yfirleitt eru dísilbílar heldur dýrari í innkaupi en bensínbílar. Þess vegna er ærin ástæða til þess að það sé frekar hvatt til þess með einhverjum verðmun að þeir séu keyptir.

Auðvitað eru ýmsar kenningar og deilur uppi um það hvað sé umhverfisvænna þegar upp er staðið. Ég geri ekki lítið úr því að menn hafa líka náð miklum árangri með bensínvélar, að gera þær sparneytnari og aflmeiri miðað við orkueiningu, svo maður tali nú ekki um enn aðrar útfærslur eins og tvíorkubíla og aðra orkugjafa, hvort sem það er metangas eða eitthvað annað.

Ég held að enn sé staðan sú að frá sjónarhóli umhverfisins séu ekki margir betri kostir í boði nú en þeir að kaupa allra sparneytnustu fjölskyldubílana sem eru knúnir dísilvélum. Það er að minnsta kosti gríðarlegur árangur að fara úr kannski tíu, tólf, fjórtán lítra eyðslu á hundrað kílómetrana og niður fyrir fimm, eins og auðvelt er að sýna fram á að í boði er ef menn kaupa hagkvæmustu eða best útbúnu dísilbílana í þessum flokki.

Úr því að ákveðið að falla frá hinni tímabundnu framlengingu og gera hana varanlega þrátt fyrir að endurskoðunarvinnunni sé ekki lokið þá finnst mér hljóta að þurfa að koma til skoðunar hvort eftir nokkru sé að bíða með að fara bara yfir það hvaða verðhlutfall eigi að vera þarna í gangi milli bensíns og olíu og festa einhvern ásættanlegan mun eins og alltaf var ætlunin að gera.

Auðvitað væri einfaldast að líta á tekjurnar í heild sinni og að reikniverkið væri bara einfaldlega þannig útbúið að það héldist alltaf á grundvelli tiltekinna forsendna sá munur sem menn vildu hafa. Að sjálfsögðu er hægt að útbúa það þannig. Gallinn var auðvitað sá að menn hreyfðu ekkert við bensíngjaldshlutanum þegar olíugjaldsupptakan átti sér stað. Í staðinn fyrir að taka tekjurnar í heild sinni og endurskoða þær sem á mannamáli hefði þýtt, eins og verðþróunin hafði þá orðið, að þurft hefði að hækka bensíngjaldið eitthvað til að búa til pláss fyrir verðmuninn ef menn ætla í alvöru að hafa hann. Það hefur sjálfsagt verið eitthvað viðkvæmt. Því var farin sú leið sem raun ber vitni. En hún hefur þennan skafanka sem stingur í augu. Ég held að það eigi bara að ræða þetta eins og að það eigi ekki að vera neitt feimnismál. Ef menn ætla að halda þarna ákveðnum verðmun án þess að það hafi áhrif á tekjur til vegasjóðs og ríkisins þá verður bara að manna sig upp í það að festa einhverja reglu sem viðheldur þessum verðmun þannig að hann sé varanlegur því það er auðvitað ekki gott heldur að það sé eitthvað verið að hringla með þetta og menn treysti því ekki ef þeir kaupa eitthvað dýrari bíl að þeir fái það þá til baka í þessum verðmun. Það þarf þá að standa.