135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:20]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að fá tækifæri til að ræða um þessi mál út frá sjónarhóli umhverfisverndarstefnu og er alveg ófeiminn við það. Ég er ákaflega þakklátur þegar menn taka mig í fræðslu eins og hv. síðasti ræðumaður gerði og þigg það með þökkum að mér sé leiðbeint í þessum efnum. Ég er langt frá því að vera fullnuma í sambandi við umhverfisskattlagningu og notkun grænna skatta sem stýritækja og fagna áhuga á því máli hvaðan sem hann kemur.

Mér þykir hins vegar miður ef menn draga einlægan vilja minn og míns flokks í þessum efnum í efa. Hvaða ástæðu hafa þeir til að ætla að við séum ekki kappsöm og áhugasöm um að þessum hlutum sé skipað á þann veg að það sé sem allra best fyrir umhverfið? Ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins halda að þeir slái mikið grand í því að reyna að snúa út úr og gera manni upp skoðanir um alvörumál af þessu tagi spái ég því að það muni fara illa hjá þeim. Ég er ekki viss um að það verði þeir hv. þingmenn, kapparnir Pétur Blöndal og liðsmaður hans sem síðastur talaði, sem hafi betur í þeirri umræðu ef út í hana yrði farið enda sé ég að þeir fara báðir úr þingsalnum.

Ég væri tilbúinn til að endurskoða skattlagningu þessara mála almennt, allt frá tollum og aðflutningsgjöldum á ökutækjunum, bifreiðagjöldin og síðan skattlagninguna á eldsneytið í heild sinni, með það að markmiði að gera skattstigann prógressífari í þessum efnum, að hann ívilnaði umhverfinu meira.

Ég held að hugmynd hv. þm. Kjartans Ólafssonar, sem hann ræddi hér, sé hins vegar arfavitlaus, að í staðinn fyrir dísilgjald eða olíugjald á hina almennu umferð sem notar dísil sem orkugjafa verði tekið eitt flatt gjald á alla notkun. Það held ég að væri að fara úr öskunni í eldinn. Er hv. þingmaður þá í alvöru að tala um að vinnuvélar eða tæki uppi á öræfum, sem aldrei fara á veg og mega ekki keyra á vegi, eigi að borga sömu gjöld, dráttarvélar í landbúnaði, jafnvel flotinn, vill hann líka setja þetta gjald á flotann? Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því að einhvers staðar þarf að draga mörkin. Ég held að það sé ekki aðferðin.

Ef menn vilja hins vegar bæta við þá skattlagningu, sem tekur að þessu leyti verulegt mið af því að tryggja tekjur til uppbyggingar samgöngukerfisins, einhverju sérstöku mengunargjaldi, sem væru þá full rök t.d. vegna losunarinnar, þá væri að sjálfsögðu um allt annað að tala að leggja einhverjar krónur — sem aldrei yrðu nema fáeinar krónur — á hvern einasta lítra sem notaður væri, hvar sem það væri. Það er eiginlegur hreinn grænn skattur sem menn hafa sums staðar gert, menn hafa sagt: Fyrst tökum við skattlagninguna, við byggjum inn í hana stýringu eftir atvikum ef við viljum ívilna dísilolíu á móti bensíni og við lítum á þetta sem tekjuöflunartæki að því marki sem það á að vera það, í ríkissjóð, í vegasjóð, stillum það af. Ofan á það gætu komið einhverjar x krónur sem fara á allt jarðefnaeldsneyti hvar sem það er notað. Fyrir þessu eru alveg gild rök. Þá verða menn auðvitað að horfast í augu við að það fer þá t.d. á orkunotkun í flotanum og ætli þeim þyki ekki olían nógu dýr, ekki bara útgerðarmönnunum heldur sjómönnunum sem sæta skertum kjarahlut vegna hás olíuverðs? Málin eru því ekki alveg svona einföld eins og menn halda þegar þeir vaða hér upp og ætla að fara að slá keilur á því að gera lítið úr þeim sem hér stendur.

Þá vil ég líka minna menn á það að við vorum og erum í mikilli klemmu með það að þungaskatturinn og olíugjaldið vega mjög þungt í flutningum í landinu og koma beint inn í vöruverðið og þeim mun tilfinnanlegar sem menn liggja fjær þjónustumiðstöðvunum og aðalútflutnings- og innflutningshöfnum landsins. Það vita allir sem eitthvað hafa fengist við þessi mál. Við sem höfum glímt við þetta áður hér á Alþingi í gegnum breytingar á umliðnum árum þekkjum vel þá klemmu sem þar kemur upp. Gagnstæðir hagsmunir vegast á, annars vegar þeir sem færa má full rök fyrir frá sjónarhóli umhverfisverndar, og ekki stendur á mér að reyna að leggja þeim lið, og svipað gildir um slit á vegum, og hins vegar byggðasjónarmið. Flutningskostnaðurinn er tilfinnanlega hár og þeir afslættir sem áður voru í þungaskatti voru dæmdir ólöglegir og samkeppnishindranir þannig að menn fundu ekki leið fram hjá því og hafa þess vegna veigrað sér við að hækka þungaskatt og/eða olíugjald eins og ýmis rök gætu staðið til að öðru leyti, þau sem ég nefndi um slit á vegum og umhverfissjónarmið, vegna þess að það mundi þá fara beint út í vöruverðið, út í flutningskostnaðinn.

Úr þessu er kannski ekki alveg svo einfalt að leysa nema menn séu tilbúnir til að beita einhverjum öðrum tækjum. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki verið. Við höfum spurt hvað líði loforðum, margendurteknum loforðum, ekki síst hjá hæstv. samgönguráðherra, um ráðstafanir til að draga úr flutningskostnaði og endurgreiða hann. Fyrri ríkisstjórn var með kosningaloforð á bakinu og gerði ekkert í því máli í fjögur ár eins og hæstv. fjármálaráðherra veit manna best því að hann mun hafa stoppað það af í ríkisstjórninni að nokkuð væri gert í þeim efnum.

Ég fagna því ef menn eru að taka þessi mál til rækilegrar heildstæðrar skoðunar eins og hæstv. ráðherra gefur í skyn að sé verið að gera í starfshópi af hans hálfu og endilega í guðs bænum drífa þá vinnu af þannig að við fáum tillögur þessa starfshóps og getum tekið þær til umræðu. Ég vona að sú umræða verði uppbyggilegri en útúrsnúningar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins hér áðan gáfu tilefni til að ætla. (Gripið fram í.)