135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

stéttarfélög og vinnudeilur.

40. mál
[17:17]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Grétar Mar Jónsson.

Málið hefur oft verið flutt á Alþingi og gengur efnislega út á að lagfæra réttarstöðu fólks í stéttarfélögum sem af einhverjum ástæðum lendir í því að kjarasamningar dragast á langinn. Frumvarpið gengur út á að breyta lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Efni þess tekur til þess að ef kjarasamningar eru lausir í sex mánuði eða lengur bætist inn í lögin ákvæði um að upphafshækkun kjarasamninga verði sjálfkrafa afturvirk. Ef menn ná ekki að gera kjarasamning áður en sex mánuðir eru liðnir gildir upphafsákvæðið þrjá mánuði aftur í tímann þegar samið verður, fari svo að það verði gert á næstu tveimur mánuðum.

Fyrir hverja tvo mánuði sem samningsgerð dregst til viðbótar, t.d. í átta mánuði, bætist einn mánuður við aftur fyrir í gildistöku upphafsákvæðis og færist þá í fjóra mánuði í staðinn fyrir þrjá. Þar af leiðandi bætist annar mánuður við þegar samningar hafa verið lausir í 10 mánuði. Sjötti mánuðurinn bætist svo við þegar samningar hafa verið lausir í 12 mánuði eða lengur. Er þá orðið lögbundið að umsamdar breytingar í kjarasamningi gildi frá því samningurinn féll út gildi og þarf ekki að semja um það sérstaklega. Hafi menn ekki náð að gera nýjan kjarasamning í heilt ár gildir nýr kjarasamningur, þegar hann verður gerður, frá þeim degi sem sá síðasti féll úr gildi.

Þetta er meginefni frumvarpsins og gengur út á að bæta réttarstöðu launþega að þessu leyti en vissulega hefur borið á því á undanförnum áratugum að kjarasamningar hafi dregist mjög á langinn. Ég bendi á að í frumvarpinu er tafla á bls. 3 sem sýnir dæmi um hvernig kjarasamningar geta dregist hjá ákveðnum stéttum en hún er miðuð við kjarasamninga sjómanna á fiskiskipum og nær yfir tímabilið frá 15. janúar 1985 til 30. október 2004.

Ef menn líta á töfluna sést hvenær kjarasamningar falla úr gildi og hversu langt samningslaust tímabil fylgir á eftir. Í töflunni sem sett er upp í dögum getum við séð að ákvæðið yrði virkt í fyrstu tölunni sem eru 185 dagar eða sex mánuðir án kjarasamnings. Í öðrum lið hafa liðið 11 mánuðir án kjarasamnings, í þriðja tilfelli 10 mánuðir, í fjórða tilfelli 11 mánuðir, í fimmta tilfelli 12 mánuðir og í sjötta tilfelli 15 mánuðir. Í sjöunda tilfelli eru liðnir 13 mánuðir án kjarasamnings og í áttunda tilfelli einn og hálfur mánuður en þar hefðu lögin enga virkni. Lagaákvæðið sem lagt er til að bætt sé inn í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur verður ekki til virkt nema kjarasamningar hafi verið lausir í sex mánuði eða lengur.

Í síðasta tilfellinu hefur gerð kjarasamnings dregist í 303 daga eða í um það bil 10 mánuði. Dæmið er tekið úr kjarasamningum Samtaka fiskimanna. Stundum er sagt að oft séu hörð átök í kjaradeilum fiskimanna og að þau hafi leitt til verkfalla. Vissulega er rétt að oft hafi þurft að beita verkfallsvopninu til að koma á kjarasamningum. Stéttarfélögin hafa samt iðulega beðið mánuðum saman, jafnvel í meira en ár, áður en verkfallsvopnið hefur verið notað til að knýja fram kjarasamninga við viðsemjendur sína. Á því tímabili sem enginn kjarasamningur var í gildi voru heldur engar kjarabætur innleiddar í kjarasamningnum. Þótt aðrar stéttir hafi notið kjarabóta á þessum árum hafa samtökin sem átt hafa aðild að kjarasamningi orðið að horfa til þess að félagar í þeirra stéttarfélögum hafa ekki notið sambærilegra hækkana og aðrir stéttir í tæplega sjö ár á 19 ára samningstímabili. Það er alllangur tími, hæstv. forseti. Ef af lagabreytingu verður geta lögin þrýst á gerð kjarasamninga og orðið til þess að vinnuveitendur sjái sér ekki mikinn hag í að draga gerð kjarasamninga á langinn, enda kemur upphafshækkunarákvæðið þá sjálfkrafa inn. Ákvæðið væri þá sjálfkrafa afturvirkt.

Það ætti því að flýta gerð kjarasamninga þó að benda megi á að vinnuveitendur, þar á meðal ríkið, hafi stundum dregið gerð kjarasamninga.

Þess vegna legg ég eindregið til að málið verði skoðað vandlega í hv. nefnd. Hér er um réttarbót til launþega að ræða, réttarbót sem þó er þannig að hún gildir ekki frá upphafsdegi þess að samningur fellur úr gildi. Það er því áhugamál stéttarfélaga að reyna að koma á samningi sem allra fyrst. Réttarbótin lagar ekki stöðuna fyrr en menn eru búnir að vera samningslausir í sex mánuði og hafa þá þegar farið á mis við verulegar kjarabætur sem komið hefðu til ef samningar hefðu gengið eðlilega fyrir sig.

Eins og áður sagði er ákvæðinu ætlað að bæta stöðu launþega og auka þrýsting á atvinnurekendur svo þeir hagnist ekki á því að draga kjarasamningagerð. Eftir sem áður brennur bæði á launþegum og atvinnurekendum að gera kjarasamning en smátt og smátt snýst réttarstaðan við, frá sex mánuðum upp í heilt ár launþegum í hag hafi þeir ekki enn náð samningum.

Í fyrri umræðum hefur stundum verið bent á að rétt væri að ákvæðið gilti ekki ef menn efndu til verkfalls. Því yrði þá jafnvel bætt inn í frumvarpið. Ég tel að í ljósi þess hversu tregir menn hafa verið til að beita verkfallsvopninu sé ekki ástæða til að refsa mönnum fyrir að gera það þegar kjarasamningar dragast með þeim hætti sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Á næsta ári liggur fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði og eins líklegt að ferlið verði erfitt og langsótt. Við vitum vel að verkalýðshreyfingin ætlar sér að ná fram ákveðnum lagfæringum fyrir umbjóðendur sína og er ekki vanþörf á. Lagfæringarnar ná til annars en kaupgreiðslnanna einna. Þær ná til skattkerfisins, tryggingakerfisins og svo framvegis, þannig að engin vissa er fyrir því að kjarasamningar gangi fljótt fyrir sig. Fyrirkomulag undanfarinna ára getur kannski flýtt samningagerðinni, þ.e. ákvæðið sem kom inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur á sínum tíma. Það fjallar um gerð svokallaðra viðræðuáætlana þar sem samningsaðilunum er falið að gera áætlanir um hvernig þeir hyggist haga viðræðum og vinnulagi við kjarasamninga.

Hæstv. forseti. Hér er eftir miklu að slægjast varðandi réttarbót launþega og þegar málið hefur farið til umsagnaraðila hafa stéttarsamtökin yfirleitt mælt með að ákvæðið fari inn í lög, sérstaklega stéttarsamtök fiskimanna og fleiri. Ef ég man rétt hafa samtök atvinnurekenda lagst gegn því að slíkt ákvæði komi inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Það þarf ekki að koma á óvart því að þegar ákvæðið verður virkt bætir það réttarstöðu launþeganna gagnvart vinnuveitendum. Ég ítreka þó að það gerist ekki nema kjarasamningar hafi verið lausir í sex mánuði eða meira. Þegar kjarasamningur er undirskrifaður er ávæðið virkt, fyrst í þrjá mánuði og síðan, ef samningur er laus í eitt ár, er orðið lögbundið að upphafsákvæði kjarasamnings gildir frá því að samningurinn féll úr gildi.

Því miður hygg ég að mjög erfitt geti orðið að semja við fiskimenn þegar kjarasamningar þeirra falla úr gildi. Við vitum jú að margir hverjir verða sjálfkrafa fyrir allt að 30% kjaraskerðingu vegna niðurskurðar þorskaflans, sérstaklega þeir sem stunda botnfiskveiðarnar. Það verður því ekki létt verk að ná samningum á þeim vettvangi ef menn vilja reyna að verja kjör sín. Ekki er greiðara að útgerðinni að sækja því að hún verður líka fyrir tekjutapi. Deilurnar í komandi kjarasamningum verða ekki auðleystar þótt ég vonist auðvitað til að það takist sem fyrst að gera nýja kjarasamninga á vinnumarkaði.