135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

raforkulög.

43. mál
[18:00]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Frumvarpið er einfalt að gerð. Það felur í sér eina breytingu á gildandi raforkulögum, þ.e. að við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verði 5. mgr. og orðist svo, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir virkjunarleyfi raforkuvers er að orkuverð og aðrir samningsskilmálar sem leyfishafi gerir við kaupendur orkunnar séu opinberir og öllum aðgengilegir.“

Á mannamáli þýðir þetta ósköp einfaldlega að bönnuð verður með lögum sú leynd á raforkuverði sem innleidd var þegar samið var um aukna raforkusölu vegna stækkunar álversins í Straumsvík 1995 í ráðherratíð þáverandi iðnaðarráðherra Finns Ingólfssonar. Eftirleiðis yrði það þannig að þeir aðilar sem þurfa virkjunarleyfi eða reisa það stóra virkjun að hún sé virkjunarleyfisskyld og/eða selja raforku um dreifikerfi til annarra þurfi að gefa upp verðskilmálana.

Til að innleiða þetta ástand þarf að taka á þeirri stöðu sem uppi er. Það er gert í ákvæðum til bráðabirgða I og II. Þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ákvæði til bráðabirgða I.

Handhafar gildandi virkjunarleyfa sem reisa eða reka raforkuver skulu frá og með gildistöku laga þessara uppfylla ákvæði 5. mgr. 5. gr. laganna við gerð allra nýrra samninga og jafnóðum og gildandi orkusölusamningar koma til endurnýjunar.

Ákvæði til bráðabirgða II.

Sé handhafi virkjunarleyfis bundinn af orkusölusamningi þar sem leynd hvílir á orkuverði með gildistíma lengur en til ársloka 2012 ber honum að tilkynna um slíkt til Orkustofnunar. Jafnframt skal leyfishafinn í samráði við Orkustofnun leita samkomulags við kaupanda orkunnar um að aflétta trúnaði um orkuverð samkvæmt samningnum fyrir þann tíma. Hafni kaupandi orkunnar slíku samkomulagi er óheimilt að framlengja gildandi samninga við hann eða gera við hann nýja.“

Þetta mundi væntanlega þýða að í áföngum, fram að árinu 2012, kæmi allt verð í stórsamningum um afhendingu raforku upp á yfirborðið eða fljótlega í framhaldinu. Þeir sem ekki undirgangast að þær upplýsingar séu opinberar og aðgengilegar fyrirgera rétti sínum til frambúðar að vera kaupendur að orku hér á landi.

Þetta er eins og áður sagði einfalt frumvarp og skýrir sig sjálft. Eðli málsins samkvæmt snýr það fyrst og fremst að stórum notendum eða þeim sem kaupa í heildsölu raforku í miklu magni, annaðhvort til eigin nota eða til að endurselja og dreifa orkunni.

Með þeim ákvæðum til bráðabirgða sem þarna eru sett upp á að vera hægt að innleiða þetta ástand án þess að hægt sé að segja að það sé íþyngjandi eða raski grundvelli þeirra samninga sem í gildi eru nema menn velji leyndina fremur en að geta áfram verið þátttakendur í nýtingu orkunnar. Þau fyrirtæki, ef einhver yrðu, sem undir engum kringumstæðum gætu sætt sig við að raforkuverðið sem þau borga fyrir orkuna yrði opinbert yrðu að sæta því. Af því hef ég reyndar engar áhyggjur. Í öðrum löndum eru þessar upplýsingar víðast hvar aðgengilegar og opinberar. Mér er sem ég sæi t.d. þingmenn á norska þinginu sætta sig við að læðupokast væri með slíkar upplýsingar.

Leyndin sem innleidd var árið 1995 var að flestra mati meira til að verja innlenda pólitíska hagsmuni en í þágu hinna erlendu orkukaupenda. Ég hef hvergi séð að um það hafi komið fram harðar kröfur frá stóriðjufyrirtækjunum, að þau skuli njóta leyndar hvað varðaði orkuverðið. Hitt er ljóst að hið lága raforkuverð hefur verið og er feimnismál í röðum þeirra sem mest hafa beitt sér fyrir stóriðjustefnunni enda þolir það illa dagsins ljós og stenst illa samanburð við raforkuverðið sem almennir notendur í landinu verða að gera sér að góðu að greiða.

Landsvirkjun hefur fylgt þessari stefnu, eftir að hún var innleidd um miðjan síðasta áratug. Aðrir hafa síðan fylgt í kjölfarið. Það er enginn vafi á að þessi leynd á sinn þátt í að auka enn á deilur og úlfúð um stóriðjustefnuna enda enn erfiðara en ella að sjá hvort stóriðjusamningar skili þjóðarbúinu viðunandi arði. Um það eru auðvitað mjög útbreiddar efasemdir. Ég vil í því sambandi vísa í annað þingmál sem liggur fyrir á hinu háa Alþingi um að farið verði að ráðum, m.a. Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD, og gerð breið, gagnsæ, óháð þjóðhagsleg úttekt á því hvort stóriðjufjárfestingarnar skili þjóðarbúinu viðunandi arði. Um það hafa hinir erlendu ráðgjafar greinilega efasemdir ásamt með mörgum fleirum. Ella væru þeir ekki að leggja það til ár eftir ár í skýrslum sínum til íslenskra stjórnvalda að farið verði ofan í saumana á þessum hlutum.

Auðvitað hlýtur það að vekja furðu, þegar betur er að gáð og um það hugsað, að við Íslendingar skulum hafa lagt jafnmikið undir í þessum efnum og raun ber vitni og tekið á okkur allan þann herkostnað sem stóriðjustefnunni er samfara í umhverfismálum og í hagkerfinu án þess að nokkurn tíma hafi verið gerð slík gagnsæ og breið arðsemisúttekt. Það er alveg ljóst að umhverfisfórnirnar sem stórvirkjunum fylgja eru færðar sameiginlega af þjóðinni og á kostnað komandi kynslóða. Áhrifin á ásýnd, orðstír og ímynd landsins og þjóðarinnar eru sameiginlegt áhyggjuefni og líklegust til að valda allt öðrum en orkuframleiðendunum búsifjum. Það er því algjört lágmark að við vitum hvar við stöndum í þessum efnum og á hverjum tíma sé hægt að gera eðlilegan samanburð á orkuverði til almennra notenda og til stórnotenda. Slíkur samanburður er ómögulegur við núverandi aðstæður. Að sama skapi er erfitt, ef ekki ómögulegt, að meta til fulls hvort arðurinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda, auðlindarentan sem svo er stundum kölluð, skili sér með sanngjörnum hætti til almennings eða þjóðarbúsins í heild.

Samkeppnissjónarmið hafa í orði kveðnu verið notuð til að réttlæta leynd á orkuverði til stóriðju en eins og auðvelt er að sýna fram á er þar ekki um neitt annað en hreinan fyrirslátt að ræða. Allir sem vita vilja þekkja hið raunverulega orkuverð en munurinn er sá að stjórnvöld og orkufyrirtækin koma sér undan upplýstri umræðu um stóriðjustefnuna í skjóli meintrar leyndar. Þetta er sem sagt eitthvað sem allir vita en það hentar mönnum til að kæfa niður umræðuna og losna við að standa reikningsskil gerða sinna að skýla sér á bak við þessa leynd.

Með þessu er einnig reynt að þagga niður í og múlbinda fjölmiðla og jafnvel þingmenn, með því að binda þá þagnarskyldu. Það er auðvelt að færa rök fyrir hinu gagnstæða, að það sé í þágu heilbrigðrar samkeppni að gagnsæi ríki á markaðnum að samningar við stórnotendur séu opinberir. Eða gengur ekki samkeppnin út á að menn viti hvar þeir standa gagnvart keppinautunum? Það væri gaman að heyra menn færa rök fyrir því að það væri í þágu samkeppni á öðrum sviðum viðskipta að halda hlutunum leyndum. Ætli mönnum þætti ekki eitthvað annað, t.d. þegar menn ræða augsýnilega samkeppni í matvöruverslun og verð frá heildsölum eða birgjum, ef þar væri allt saman leynd undirorpið?

Þótt hægt væri að færa fram haldbær rök fyrir því að leyndin þjónaði einhverjum viðskiptalegum tilgangi er í öllu falli ljóst að þá takast á í málinu meintir einkahagsmunir viðkomandi aðila, meintir einkahagsmunir orkukaupans og mögulega orkusalans, en á hinn bóginn ríkir almannahagsmunir, þ.e. hagsmunir sem eru fólgnir í að við getum á hverjum tíma áttað okkur á því hvort við erum sátt við þá nýtingu náttúrunnar, þá ráðstöfun auðlindanna og þann arð sem þjóðarbúið og þjóðfélagið hefur af henni í ljósi þess verðs sem fyrir orkuna er greidd. Án þess er allt tal um að þjóðin þurfi sannanlega að geta tryggt að hún njóti eðlilegs afraksturs af auðlindum sínum tómt tal sem ósköp einfaldlega drukknar í þessum leyndartilburðum sem að mínu mati þjóna fyrst og fremst pólitískum hagsmunum en ekki heilbrigðum samkeppnissjónarmiðum og þaðan af síður hagsmunum almennings. Það er margt sem kallar á þessar upplýsingar til að upplýst umræða um umhverfismál, orkunýtingu, almannahagsmuni o.s.frv. geti farið fram og að almenningur geti haft eðlileg áhrif á framkvæmdaáform, t.d. þegar þau sæta umhverfismati.

Að vísu hafa íslensk stjórnvöld staðið sig fram úr hófi illa í að tryggja almenningi í landinu þann rétt sem hann á samkvæmt alþjóðasamningum, sem Ísland meira að segja hefur undirritað, t.d. í Árósasamningnum. Út á hvað gengur Ársósasamningurinn, út á hvað ganga ákvæði Ríó-samninganna að þessu leyti? Jú, þau ganga út á skýlausan rétt almennings til að hafa upplýsingar um umhverfismál og til þess að geta látið sitt álit í ljós. Hvernig eiga menn að gera það þegar væntanlegar stórframkvæmdir eiga að sæta umhverfismati ef mikilvægustu breytunni í málinu, hvað varðar hinar efnahagslegu stærðir, þ.e. orkuverðinu, er haldið leyndri?

Færa má fyrir því rök að sennilega standist þetta ósköp einfaldlega ekki ef farið væri út í það. Ef ekki fæst á þessu máli úrbót og þessu verður breytt þá hlýtur að koma að því að menn, þótt ekki væri nema til þess að halda mönnum við efnið, láti reyna á það fyrir dómstólum hvort stætt sé á því, þegar í hlut á ráðstöfun gríðarlega verðmætra sameiginlegra auðlinda eins og virkjunarréttinda í eigu ríkisins eða í þjóðlendum, að leyna orkuverðinu. Stenst það kröfur um aðgengi almennings að upplýsingum og annarra aðila sem að málinu koma? Stenst það t.d., virðulegur forseti, í raun og veru? Nær það máli að alþingismönnum hafi verið ætlað að greiða atkvæði um hluti án þess að hafa þessar upplýsingar? Það er veruleikinn. Á undanförnum árum hefur verið reynt hér á þingi, sem er auðvitað til stórkostlegs vansa, að múra þessar upplýsingar inni í þingnefnd og leyna fyrir öðrum þingmönnum en þeim sem sitja í viðkomandi þingnefndum. Samt hafa þeir átt að greiða sitt atkvæði um hvort ráðast ætti í Kárahnjúkavirkjun, eða hvað það nú var.

Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða úrskurð sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi 10. nóvember 2006, fyrir rétt um ári, þar sem kæranda, í því tilviki Hjörleifi Guttormssyni, fyrrv. alþingismanni og iðnaðarráðherra, var úrskurðað í vil í máli gegn Seyðisfjarðarkaupstað og kaupstaðnum gert skylt að veita kæranda í heild aðgang að samningi virkjunaraðila í Fjarðará og kaupstaðarins, þar með um ákvæði um greiðslur fyrir vatnsréttindi. Málin eru að vísu ekki að öllu leyti hliðstæð því sem hér á við en þó eru menn taldir eiga ríka hagsmuni af því, sem borgarar í landinu, að fá aðgang að svona upplýsingum til að geta undirbyggt og rökstutt málflutning sinn, m.a. í tengslum við mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun um hvort leyfa eigi viðkomandi framkvæmdir og þá með hvaða skilyrðum o.s.frv.

Í rökstuðningi sínum leggur nefndin einmitt áherslu á að skýra beri allar undantekningar á upplýsingarétti almennings þröngt og eins þótt meintir einkahagsmunir eigi í hlut, þ.e. réttur almennings hér er mjög ríkur og hann hefur almennt verið að styrkjast í umræðu um slík mál á undanförnum árum, a.m.k. alls staðar annars staðar en á Íslandi.

Ég vil líka vekja athygli á fylgiskjölum með þessu frumvarpi og þá ekki síst fylgiskjali I en þar eru endurprentaðar tvær afar athyglisverðar greinar úr Morgunblaðinu 22. og 23. apríl síðastliðinn eftir Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra og áður starfandi í fjármálaráðuneytinu, forstöðumann fjárlagaskrifstofunnar þar, ef ég man rétt, í langan tíma. Þær snúa að viðfangsefninu Auðlindir og arður. Þar er farið á mjög athyglisverðan hátt yfir hvaða forsendur þurfi að leggja til grundvallar þegar reynt er að meta hvort viðunandi arður eða renta skili sér til þjóðarinnar eða út í þjóðarbúskapinn í fjárfestingartilvikum eins og þessum. Auðvitað þarf ekki að fjölyrða um hversu ákaflega mikilvægt er að vita þá söluverð framleiðsluvörunnar, þ.e. raforkunnar, þannig t.d. að hægt sé að bera það saman við viðurkennt heimsmarkaðsverð á hverjum tíma. Það er ekkert leyndarmál og menn vita nokkurn veginn upp á hár hvert verðið er til stórnotenda í Noregi, á meginlandi Evrópu eða í Vesturheimi. Það er líka vitað að verðin hér eru lægri, verulega lægri, en það er bara ekki vitað hversu miklu lægri.

Það var náttúrlega ákaflega neyðarleg uppákoma þegar aðstoðarframkvæmdastjóri Alcoa missti það út úr sér í Brasilíu að þeir væru að borga dálítið hátt raforkuverð þar, það væri nú einhver munur á kjörunum sem þeim byðust á Íslandi. Þetta var að vísu allt saman tekið út af heimasíðunni sólarhring síðar því að þetta slapp algjörlega óvart út í andrúmsloftið. Engu að síður er þetta lýsandi fyrir þá stöðu sem við erum í í þessum efnum, að menn ganga út frá staðreyndum í umræðum um þessi mál í Noregi, Kanada, Bandaríkjunum, Brasilíu eða hvar það nú er en á Íslandi hafa menn farið í þennan feluleik á síðustu árum.

Um þetta mætti auðvitað ýmislegt fleira segja, virðulegi forseti, en ég held tímans vegna að ég sé ekkert að gera það hér. Ég tel mig hafa mælt fyrir málinu og rökstutt það eins og unnt er að gera í stuttu máli. Ég ætla ekki að fara að stofna hér til almennra umræðna um þennan málaflokk þó að vissulega sé fullgilt að gera það hvenær sem er og hvar sem færi býðst og veitir ekki af því að menn virðast lítið vera að sjá að sér í þessum efnum, því miður.

Auðvitað má segja að það rofi örlítið til þegar Landsvirkjun fer allt í einu að velta því fyrir sér hvort hún geti kannski fengið meira verð fyrir rafmagnið með einhverjum öðrum hætti en að selja það á útsölu til álvera. Það er náttúrlega ekki seinna vænna en það tendrist örlítið ljós inni í þeim dimma kastala þar sem það hefur verið trúboð fram að þessu að reyna einmitt að selja allt í stórum slöttum til álvera. Þeir eru farnir að velta því fyrir sér að hugsanlega séu aðrir kaupendur tilbúnir að borga eitthvað hærra verð. En er þá ekki líka gott að vita hvert verðið er þannig að við höfum eitthvað til að styðjast við í þeim efnum?

Það vill svo til að Landsvirkjun er 100% í eigu ríkisins þannig að það varðar okkur líka sem eigum að gæta almannahags í þessum efnum og ekki síst þar sem ríkisrekstur og ríkisfyrirtæki eiga í hlut fyrir utan yfirgnæfandi stærð fyrirtækisins á markaði og þeirrar staðreyndar að það er stærsti heildsalinn á raforku til þeirra sem orku kaupa sem slíkir og endurselja og dreifa um landið. Jafnvel þó að einhverjir þeirra sem áður hafa verið stórir kaupendur hjá Landsvirkjun auki núna sína framleiðslu síðustu missirin þá stendur eftir að stór hluti raforkunnar í landinu kemur frá virkjunum Landsvirkjunar, er keyptur í heildsölu af fyrirtækjum eins og Rarik, Orkubúi Vestfjarða, Orkuveitu Reykjavíkur og endurseldur síðan notendum á því verði sem við þekkjum. Það þekkjum við, það er opinbert. Það má vera opinbert hvað almenningur er látinn blæða fyrir orkuna hér á landi en ekki afsláttarkjörin og vildarkjörin sem stóriðjan fær, (Gripið fram í.) einfaldlega vegna þess að það þolir illa dagsins ljós, þó að auðvitað séu rök fyrir því og allir skilji að það sé eðlilegt að einhver hóflegur verðmunur sé þarna á milli. Þegar stórnotandi kaupir mikla orku í jöfnu magni allt árið þá er það eðli málsins samkvæmt kannski annað en kaup einstakra notenda, en það þarf gild rök til að sannfæra menn um að það sé réttlætanlegt að munurinn sé jafnmargfaldur og hann er í dag. Það þarf líka gild rök til að sannfæra okkur um að það sé gáfulegt að Íslendingar selji orkuna alveg niður undir þriðjung af því sem borgað er í Noregi í nýjum samningum í stóriðju þar og tvöföldu verði á við það sem algengt er á meginlandi Norður-Ameríku nema þá einstöku samningar í Kanada sem kunna að liggja lægra og verðin á meginlandi Evrópu eru einhvers staðar mitt á milli þess sem þau eru í Noregi og á meginlandi Norður-Ameríku.

Þetta er hin grófa mynd af málinu og menn vita, eins og ég sagði áður, í aðalatriðum hvar þessi verð liggja. Það síast smátt og smátt út. Enda held ég satt best að segja að þeir sem leggja mest upp úr leyndinni séu ekkert sérstaklega viðkvæmir fyrir því að orkuverðið spyrjist út, svo lengi sem þeir hafa leyndina til að skýla sér á bak við og þurfa ekki að staðfesta, játa eða neita einu eða neinu og getað neitað upplýstri umræðu um verðið og hvort það sé að skila viðunandi arði inn í þjóðarbúið. Það er umræðan sem ekki þolir dagsins ljós. Það er umræðan sem þeir vilja ekki. Það er umræðan sem þeir mundu tapa um leið og þeir lentu í henni og þess vegna er leyndin til komin.

Þetta er auðvitað þeim mun alvarlegra, virðulegi forseti, sem þróun í orkubúskap og orkumálum heimsins er með þeim hætti að þessi gömlu samningar og nýlegir samningar til stóriðju hér á landi verða hraklegri og hraklegri í ljósi þeirrar orkuverðsþróunar sem nú blasir við og er fram undan og enginn reiknar með öðru en að verð á orku haldi áfram að hækka frekar en hitt. Menn sjá nú fyrir sér að ýmsir aðrir orkugjafar fari að verða samkeppnisfærir sem ekki voru taldir verða það á næstunni vegna lægri orkuverðs á árum áður. Það hafa meira að segja komið fram spár um að orkuverð gæti, t.d. olíuverð, gæti átt eftir að tvöfaldast á næstu nokkrum árum frá því sem það er í dag. Ég var að lesa í erlendu blaði nýja spá um það að menn hafa jafnvel í útreikningum sínum komist þangað að það sé ekki útilokað að olíufatið fari í 200 dali áður en mjög mörg ár líða og það þyrfti jafnvel ekki meira en eitt ófriðarbálið enn í Miðausturlöndum, ég tala nú ekki um ef Bandaríkjamenn létu verða af draumum sínum um að ráðast á Íran, til þess að við gætum séð jafnvel slíkt orkuverð. Þá hljótum við auðvitað að sjá hvers konar gríðarleg áhrif það hlýtur að hafa á orkuverð þegar heimurinn er enn sem komið er jafnháður orku frá kolefnaeldsneyti og raun ber vitni.

Hvernig sem því öllu vindur fram, virðulegi forseti, þá held ég að svo yfirgnæfandi sterk rök hnígi á þá hlið að afnema þessa leynd og pína þessar upplýsingar fram í dagsljósið að ég öfunda ekki þá menn sem ætla sér að reyna að verja hinn málstaðinn, verða fulltrúar leynipukursins í þessum efnum. Satt að segja vonast ég til að þær raddir verði ekki margar og að Alþingi taki kannski á sig rögg og samþykki einfaldlega þetta mál í þeirri mynd sem það er flutt hér eða eftir atvikum með einhverri útfærslu sem menn komast niður á að sé hinn skynsamlegasta í þessum efnum.

Ég vil láta koma fram í lokin að af hálfu okkar flutningsmanna er allt opið í þeim efnum að skoða betur t.d. skilgreiningar eða viðmið hér. Það er í sjálfu sér ekkert sáluhjálparatriði að fara þá leið sem frumvarpið leggur til, að þetta sé alfarið bundið við virkjunarleyfi. Það væri alveg hægt að hugsa sér að skilgreina betur stórkaupendur og draga mörkin þar ef menn hafa sannfærandi rök fyrir því. Ég sé þó enga ástæðu til að flokka þetta upp og held að langhreinlegast og einlægast sé að allt raforkuverð sé gefið upp þegar um er að ræða framleiðslu til sölu til annarra aðila, þá eru að sjálfsögðu undanskildir bændur sem reisa smávirkjanir fyrir sjálfa sig og aðrir slíkir aðilar. Það þjónar engum tilgangi og er engin ástæða til að skylda þá til upplýsingaskyldu eða eftirlits af þessu tagi, enda ekki um leyfisbundna starfsemi að ræða ef menn eru að framleiða rafmagn í smávirkjunum fyrir sjálfa sig og því mega þeir vera undanskildir.

Ef menn hafa hugmyndir um aðra nálgun eða önnur viðmið í þessum efnum erum við að sjálfsögðu tilbúin til að skoða það svo fremi sem megintilgangi frumvarpsins verði náð, að afnema leynimakkið með útsöluverð til stóriðjunnar.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og iðnaðarnefndar.