135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

raforkulög.

43. mál
[18:26]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka fram að ég er enginn sérstakur talsmaður þess að orkuverð til stóriðju sé leyndarmál og ég held að þetta tal hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um leynipukur og leynimakk sé afskaplega orðum aukið.

Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að ákvæði af þessum toga sé sett í lög. Ég hef efasemdir um að í samningum á milli aðila, vegna þess að þetta eru nú einu sinni samningar á milli aðila, sé það sett í lög hvað varðar orkuiðnaðinn að þar eigi að koma fram hvert verðið sé en ekki í öðrum tilvikum. Mér finnst misskilningur hjá hv. þingmanni að leggja það til.

Eins tel ég að það séu ákveðnir annmarkar á því hvernig þetta er lagt til í frumvarpinu, að gera þetta háð virkjunarleyfi raforkuvers held ég að sé varhugavert vegna þess að það liggur alveg fyrir að þótt bændur séu að virkja að einhverju leyti fyrir sjálfa sig og það séu kannski smáar virkjanir og hugsaðar til heimanota, þá er samt sem áður að fjölga smærri virkjunum í eigu einkaaðila sem selja rafmagn, jafnvel að öllu leyti, til aðila sem við mundum kalla stóra notendur þótt það séu ekki álver. Því væri óskandi að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hætti að tala bara um álver og færi að tala um verð á raforku í landinu. Þetta er afskaplega einsleit og þreytandi umræða, verð ég að segja. Eftir að frelsi var gefið á raforkumarkaði þá ber mönnum ekki einu sinni lengur skylda til þess á svokölluðum almennum markaði, þá er ég að tala um lítil fyrirtæki og stór fyrirtæki, að gefa upp orkusöluverðið sjálft nema menn óski og vilji gera það og ef menn vilja það þá er það bara sjálfsagt mál.

Ég endurtek að ég er hreint ekki talsmaður þess að orkuverð Landsvirkjunar til hinna og þessara aðila, eða Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, sé leyndarmál og ég er ekkert viss um að gagnaðilarnir séu endilega sammála því heldur. En ég efast stórlega um þá (Forseti hringir.) aðferð að setja svona ákvæði í lög og mér finnst felast í því ákveðin forræðishyggja.