135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

raforkulög.

43. mál
[18:33]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alkunn samlíking sótt vestur um haf sem hv. þingmaður vitnaði síðast til að ég hefði tekið mér í munn. Ég sé ekki mikið eftir því. (Gripið fram í: Úr vestrinu.) Úr vestrinu.

Það er rétt að það er eðlilegt og sjálfsagt að ræða hver sé eðlilegur verðmunur á samningum til stóriðju og síðan aftur sölu til almennings. En hvernig eigum við að ræða eðlilegan mun í þessum tilvikum ef við vitum ekki um verðið til stóriðjunnar? (Gripið fram í: Þú sagðist vita þetta.) Já en ég má ekki vita það og á ekki að vita það. Ég á ekki að segja það úr ræðustóli o.s.frv. einfaldlega vegna þess að hafi ég komist yfir upplýsingar um þetta, starfa minna vegna, þá á ég að vera bundinn trúnaði, ekki satt? Ég hef að vísu aldrei undirgengist hann (Gripið fram í: Þú getur reiknað það út.) og ég hef aldrei tekið við þeim upplýsingum í iðnaðarnefnd, svo það liggi fyrir hér. Já, ég hef reiknað það út og veit það nokkurn veginn upp á hár og gæti meira að segja sett það á prent í bók hvar verðið liggur um það bil, og verðið er skammarlegt.

Það er alveg ljóst að þetta var gert 1995 vegna þess að verðið er hörmulega lágt sem þá var samið um þegar stækkað er í Straumsvík. Menn voru þá að vísu á hnjánum og töldu sér trú um að þá væri brunaútsala og þeir yrðu að reyna að koma þessu út, annars tækist það aldrei. Raforkuverðið var sömuleiðis mjög lélegt sem samið var um 2003 og 2004 þegar hafist var handa um Kárahnjúkavirkjun og samið var um stækkun á Grundartanga.

Ég geri ráð fyrir, og þykist reyndar vita að það sé rétt, að verðið sé heldur skárra núna, það viðmiðunarverð sem menn hafa talað um, annaðhvort í nýjustu gerðum samningum eða áformuðum samningum. Þar hafa menn talað um hærra verð og skárra væri það þótt verðið fylgdi að einhverju leyti heimsmarkaðsverðsþróun á raforku. En það ber allt að sama brunni. Við getum ekki rætt um þetta efnislega og uppbyggilega nema við höfum upplýsingarnar í höndunum, þær séu opinberar og þær megi nota, að það megi tala um þær. Það standa engin rök nógu veigamikil fyrir því að slá skjaldborg um þessa leynd. Það á bara að hætta þessu.