135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:31]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna útspils frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur sem hefur glumið mjög í eyrum í morgun. Ég hlýt að spyrja hæstv. starfandi utanríkisráðherra hvort eitthvað nýtt sé að gerast í sambandi við EES-samninginn og hvað það er sem gerir það að verkum að þetta kemur fram núna. En fyrst vil ég fara í smásöguskoðun, hæstv. forseti.

Ég fer aftur til ársins 2001. Þá lýsir Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, áhyggjum af því að staða Íslands sé að veikjast innan Evrópusambandsins. Hann segir að innan EFTA-ríkjanna fari fram umræða um hvort fara eigi formlega fram á það við Evrópusambandið að taka upp viðræður um breytingar á samningnum. Davíð Oddsson segir á sama tíma að samningurinn taki ekki til allmargra atriða og aldrei hafi staðið til að hann tæki til þeirra. Í júní 2001 kemur út sérfræðingaskýrsla sem bendir á veikleika EES-samningsins. Ísland, Noregur og Liechtenstein velta fyrir sér möguleikum á að uppfæra samninginn. Í nóvember 2001 segir Halldór Ásgrímsson ESB ekki rækta EES-samninginn og nauðsynlegt sé að ræða ítarlega um hann við Evrópusambandið.

Í febrúar 2002 segja tveir fyrrverandi embættismenn í Noregi að samningurinn sé orðinn veikur og erfitt sé fyrir Norðmenn að horfa upp á að nágrannaþjóðirnar í Evrópu séu að þróa mikilvægt samstarf meðan ekkert gerist þar. Síðan gerist það að Halldór Ásgrímsson hefur frumkvæði að því að teknar eru upp viðræður sem áttu að snúast um fjögur atriði. Í fyrsta lagi að EES-samningurinn verði uppfærður til samræmis við breytingar á Rómar-sáttmála. (Forseti hringir.) Í öðru lagi að leitast verði við að hafa áhrif á ákvarðanatöku innan sambandsins. Í þriðja lagi að sækjast eftir betri markaðsaðgangi. Sannleikurinn er sá að það eina sem náðist fram er betri markaðsaðgangur fyrir síld en Evrópusambandið sagði einfaldlega (Forseti hringir.) að þeir ætluðu að tala um hina þættina einhvern tíma seinna. Einhvern tíma seinna er ekki enn þá komið og þess vegna spyr (Forseti hringir.) ég hæstv. utanríkisráðherra: Hvenær er von á því að það gerist?