135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:34]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég er aðeins að reyna að átta mig á fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Mér skilst að tilefnið séu ummæli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur en hún ásamt einum af varaforsetum Evrópuþingsins, Diönu Wallis, skilaði skýrslu nú á dögunum sem varpar ágætu ljósi á þá staðreynd m.a. að EES-samningurinn er orðinn 15 ára gamall. Hann hefur staðist tímans tönn sæmilega en það er auðvitað ýmislegt í honum sem endurspeglar ekki þær breytingar sem orðið hafa á Evrópusambandinu á þeim 15 árum sem liðin eru frá gerð samningsins.

Þrátt fyrir það hafa bæði EFTA-ríkin og Evrópusambandið lagt sig fram um að láta samstarfið ganga og ganga upp á öllum stigum þess á milli embættismanna og stjórnmálamanna og ég hygg að allir hér viti hvernig það gengur fyrir sig. Hv. þingmaður þekkir það vel úr fyrri störfum sínum, vænti ég. Tvennt ber að hafa í huga í þessu er lýtur að hugsanlegri endurskoðun EES-samningsins. Í fyrsta lagi er ekki að sjá að fyrir því sé pólitískur vilji innan Evrópusambandsins að taka samninginn upp með neinum hætti. Á það var látið reyna á árunum 2001–2002 þegar stækkunarviðræður fóru fram en þá reyndist ekki vilji fyrir því og má ólíklegt teljast að það hafi breyst á árunum sem síðan hafa liðið. Í öðru lagi vil ég benda á að það getur líka verið tvíbent að taka upp svona tveggja stoða samning þegar í annarri stoðinni eru komin 27 ríki. Það getur ýmislegt komið upp í þeim samningaviðræðum sem ekki endilega hentar okkur. Það geta komið súr ber með þeim sætu og það þarf að hafa það í huga þegar lagt er mat á gildi samningsins.