135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:38]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég held að það sé mál þeirra sem þekkja vel til EES-samningsins að hann hefur þjónað íslenskum hagsmunum alveg gríðarlega vel frá því að hann tók gildi hér á landi. Í þeirri umræðu sem hér fer fram og í annarri umræðu sem vissulega hefur verið í mörg ár þar sem menn hafa velt því fyrir sér hvort samningurinn sé nægjanlegur til að tryggja þessa hagsmuni, hefur hingað til ekki verið bent á eitt einasta mál þar sem mikilsverðir íslenskir hagsmunir hafi farið forgörðum vegna þess að samningurinn hafi ekki virkað eins og honum var ætlað að virka. Það er alveg greinilegt að þeir sem hafa haft mestar áhyggjurnar hafa enn þá ekki fundið slík dæmi.

Ég tel að það skipti máli að við styrkjum aðkomu þingsins að innleiðingu EES-gerða. Ég tel sjálfsagt að skoða það en færð hafa verið fyrir því rök að þingið hafi ekki staðið nægan vörð um þann rétt sinn og ég held að það sé mál sem við þurfum að skoða á næstu missirum. En það er líka rétt að hafa í huga að nýverið hefur verið fjallað um þetta mál í Evrópuskýrslu sem þingið lét vinna fyrir stuttu síðan þar sem farið var mjög ítarlega yfir alla þætti sem skipta máli hvað varðar framkvæmd EES-samningsins og samskipti Íslands við ESB. Þær áhyggjur sem hér hafa komið fram, þó að þær séu allar ágætar og góðra gjalda verðar, breyta ekki þeirri staðreynd sem skiptir mestu máli að samningurinn hefur þjónað hagsmunum okkar vel. Ekki hafa neinir mikilsverðir hagsmunir glatast vegna þess að hann hafi ekki gert það sem honum var ætlað að gera. En við skulum ekki gleyma því að þessi samningur jafngildir ekki því að við séum hluti af ESB, honum var aldrei ætlað það hlutverk. Auðvitað má ætla að það séu ýmis atriði innan ESB sem ekki koma til okkar eða við höfum ekki áhrif á. Þannig var málið lagt upp í upphafi. Við ætluðum okkur ekki að ganga í ESB, við ætluðum okkur að fara í EES-samstarfið. Því þarf það ekki að koma neinum á óvart þó að það sé ýmislegt sem við Íslendingar höfum ekki áhrif á á vettvangi ESB. Um það hefur verið pólitísk sátt hingað til að sækja ekki um aðild og ég held að það sé ekki nein breyting á þeirri stöðu.