135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Umræðan sprettur vegna útkomu skýrslu í gær, skilst mér, sem við höfum ekki séð í þinginu, a.m.k. hefur hana ekki rekið á mínar fjörur. Um Evrópusambandið og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er það að segja að það er í ákveðnum farvegi hvernig það gengur fyrir sig á Alþingi. Áður en ákvarðanir eru samþykktar í sameiginlegu evrópsku EES-nefndinni er málið lagt fyrir íslenska þingið í formi þingsályktunartillögu og Íslendingar samþykkja ekki nýjar gerðir með gildistöku á EES-svæðinu fyrr en Alþingi hefur lagt blessun sína yfir það með samþykkt þingsályktunar. Að lokinni samþykkt nefndarinnar kemur málið síðar til þingsins í formi lagafrumvarps.

Það má kannski finna eitthvað að þessu ferli og styrkja stöðu Alþingis í því. Aðkoma þess að undirbúningi málsins er ákaflega veik eins og vakin var athygli á í umræðunni um utanríkismál fyrir nokkrum dögum og mér finnst sjálfsagt að ræða þá hluti í því skyni að styrkja aðkomu Alþingis að undirbúningi málsins. En það er varla hægt að gagnrýna þennan feril, hann er nokkuð traustur og sæmilega lýðræðislegur út frá okkar sjónarhóli séð. Hins vegar má efast um að þess sé nægilega gætt að málatilbúnaður innan Evrópusambandsins sé með þeim hætti að svari kröfum manna um lýðræðislega meðferð. Það er ekki okkar mál að hafa áhyggjur af því á þessu stigi og ég veit ekki til þess að það standi til að við hugum að inngöngu í Evrópusambandið.

Ég held, virðulegi forseti, að við ættum að velta því fyrir okkur hvernig við getum bætt stöðu Alþingis við undirbúning mála en ég held að ekki sé ástæða til að gagnrýna það fyrirkomulag sem viðhaft er á Alþingi.