135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

ummæli þingmanns um EES-samninginn.

[13:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér eru til umfjöllunar ummæli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í útvarpsþætti í gær sem ég því miður ekki heyrði. Ég heyrði hins vegar haft eftir henni í fréttum útvarpsins að tímabært væri að taka upp EES-samninginn. Nú hefur umræðan hér ekki snúist um það atriði þó svo að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi notað það sem inngang sinnar umræðu.

Mér þykir afar mikilvægt að undirstrika það sem kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, starfandi utanríkisráðherra. Það er ekki til umræðu að taka upp EES-samninginn. Til þess þarf sjálfstæðar samþykktir 25 eða 27 Evrópuríkja. Það er ekki til umræðu að taka þann samning upp. Ég tel þau ummæli sem höfð voru eftir hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur í fréttum því ámælisverð. Það kann að vera að þau hafi verið slitin úr samhengi, ég skal ég ekki segja um það.

Ég held að mergurinn málsins sé þessi: Samfylkingin hefur verulega þörf fyrir að greina sig frá samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn og setja Evrópumálin á dagskrá á sínum forsendum. Það kann að vera að ummæli hv. þingmanns séu liður í þeirri viðleitni, sem ég tel góðra gjalda verða. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið, það er mikilvægt að Evrópuumræðan sé tekin upp á dýpri hátt og á breiðari vettvangi en leyfist undir þessum dagskrárlið um störf þingsins.

Um ábyrgð okkar á Alþingi varðandi innleiðingu EES-gerðanna vil ég segja að þingmenn sem eru störfum hlaðnir, hafa feikinóg að gera við lestur og vinnu á þingmálum, hafa sjaldnast tíma til að setja sig nægilega vel inn í þær EES-gerðir sem innleiddar eru hér. Það væri sannarlega af hinu góða að þau skilaboð mættu koma úr þessum ræðustóli til stjórnar Alþingis, (Forseti hringir.) til stjórnar þingflokkanna, að við finnum aðferð við að kafa betur ofan í þau mál sem við höfum hér til umfjöllunar.