135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Á einhverjum mestu þenslutímum íslensks samfélags sameinuðust stjórnvöld og bankarnir um að stórauka framboð á lánsfé til húsnæðiskaupa heimilanna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefur hækkað um 70–80% frá haustinu 2004, og frá árinu 2000 um 140%. Margir telja að þetta hafi verið alvarleg hagstjórnarmistök sem leiddu til gífurlegra verðhækkana á fasteignum og hárra vaxta.

Frá því að þessi sprenging á húsnæðismarkaði byrjaði árið 2004 hafa skuldir heimilanna í íslenskum krónum aukist um rúmlega 600 milljarða og erlend lántaka heimilanna er nú 113 milljarðar en var sáralítil í ársbyrjun 2004. Yfirdráttarlán heimilanna eftir að bankarnir hófu að veita fasteignalán voru þá 56 milljarðar en eru nú 71 milljarður og hafa því vaxið um tæp 30%.

Staða lágtekjufólks og fyrstu íbúðakaupenda á húsnæðismarkaði hefur sjaldan verið verri og er mikið áhyggjuefni. Það er ekkert ofsagt þegar sagt er að neyðarástand ríki hjá þessum hópum. Félagslega eignaríbúðakerfið var lagt niður 1998 og með afnámi viðbótarlánanna 2004 sem þjónuðu ágætlega fyrstu íbúðakaupendunum hefur ekki verið til neitt félagslegt eignaríbúðakerfi. Á sama tíma hefur verið dregið verulega úr opinberum styrkjum eins og vaxtabótum og húsaleigubótum.

Staðan núna er sú að allur ávinningurinn af vaxtahækkunum á fasteignalánum frá 2004 er horfinn og meira en það. Vextir hafa verið hækkaðir um 60% frá þeim tíma og eru nú allt að 7,4% sem þýðir að greiðslubyrði af 18 millj. kr. láni hefur aukist um 430 þús. á ári. Það er auðvitað átakanlegt að þessi þróun hefur bitnað mjög harkalega á þeim sem verst standa, fyrst íbúðakaupendum og lágtekjufólki á leigumarkaði en í könnun sem félagsmálaráðuneytið lét gera kemur í ljós að 7 þús. manns hafa reynt að kaupa íbúð á síðustu árum en horfið frá því og að 70% aðspurðra á biðlistum eftir félagslegum leiguíbúðum eru með innan við 150 þús. kr. í heildartekjur á mánuði á sama tíma og algeng leiga á lítilli íbúð er vel yfir 100 þús. kr.

Viðfangsefnið er að snúa þessari þróun við. Til þess þarf samstöðu margra, stjórnar, stjórnarandstöðu, ríkis og sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og ekki síst lánastofnana. Á málinu eru engar auðfengnar eða einfaldar lausnir. Vandamál þeirra sem eru að hefja búskap er ekki bara hrikalega hátt húsnæðisverð sem fæstir ráða við, heldur það vaxtastig sem við búum við núna.

Það er afar erfið staða að jafnvel þótt lagðar séu til aðgerðir til að auðvelda fyrstu íbúðakaupendum að eignast húsnæði með betri lánaskilmálum, sem við sannarlega stefnum að, er þetta háa vaxtastig sem við búum við núna algjör flöskuháls því að það er erfitt að bjóða ungu fólki að taka lán með háum föstum vöxtum til 25 eða 40 ára.

Maður verður auðvitað að vona að þetta háa vaxtastig sem við búum við núna vari aðeins tímabundið og að vextir lækki á næstu missirum. En vandamálið er að fjöldi fólks sem er húsnæðislaus og er að hefja búskap getur illa beðið eftir að vextir lækki. Ljóst er að vaxtakjör á langtímalánum á húsnæðismarkaði eru út úr öllu korti og alls óviðunandi sem langtímafjármögnun fyrir íbúðakaupendur. Þetta er staða sem ekki er hægt að búa við, að þensluaðstæður í samfélaginu og skammtímaráðstafanir með hækkun vaxta til að slá á verðbólgu verði til þess að fólk sitji uppi með óhagstæða fjármögnun íbúðarhúsnæðis á föstum vöxtum til 25 eða 40 ára.

Þeirri nefnd sem nú er að móta tillögur varðandi úrlausnir þeirra sem eru fyrstu íbúðakaupendur og fólks sem er undir ákveðnum tekjueignarmörkum er því vandi á höndum. Hún mun væntanlega skila niðurstöðum á næstu dögum sem bæta eiga hag fyrstu íbúðakaupenda og byggja upp almennan leigumarkað og fjölga búsetuformum. Lít ég þá sérstaklega til húsnæðissamvinnufélagaformsins og óhjákvæmilega verður líka að taka upp húsaleigubótakerfið og hugsanlega einnig vaxtabætur.

Húsnæðisstefnan er augljóslega komin í þrot og nú þurfa ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins að vinna saman að því að bæta húsnæðiskerfið, tryggja sérstaklega fyrstu íbúðakaupendum viðunandi kjör og bæta leigumarkaðinn til að ná niður leiguverði og fjölga leiguíbúðum. Sveitarfélögin þurfa að útvega lóðir á kostnaðarverði, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfa að taka höndum saman um að mynda sameiginlegan íbúðamarkað með fjölbreytilegum valkostum og ríkið þarf að viðurkenna að húsnæðismálin séu velferðarmál og láta útgjöld hins opinbera endurspegla það. Öruggt húsnæði er hornsteinn velferðar fjölskyldna í landinu, og eitt brýnasta viðfangsefni næstu missira er að endurreisa húsnæðiskerfi landsmanna.