135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

hækkun vaxta á íbúðalánum.

[14:17]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Vaxtahækkanir íbúðalána nýverið eru afleiðing viðvarandi stýrivaxtahækkana. Þær eru aftur afleiðing verðþenslu í samfélaginu sem er svo aftur afleiðing hagstjórnarmistaka sem Framsóknarflokkurinn og hv. þm. Guðni Ágústsson bera ábyrgð á. Hann ásakar (Gripið fram í.) hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að horfa um of í baksýnisspegilinn. Ég held að honum hefði kannski verið hollt að horfa út um framrúðuna þegar hann var að lækka skatta í miðju góðæri.

Virðulegi forseti. Vaxtahækkanir bankanna sem við höfum séð upp á síðkastið eru staðfesting þess að lánaframboð bankanna á sínum tíma byggðist ekki á raunhæfum endurfjármögnuðum forsendum heldur fólu í sér undirboð. Við búum við veikan grundvöll vegna þess að gjaldmiðillinn er veikur og verðtrygging er víðtæk og þess vegna þurfum við að hækka stýrivexti meira en ella. Af þeirri ástæðu hafa sjónir manna hafa beinst að evru sem framtíðarlausn. Það er hins vegar mjög mikilvægt að við vinnum með Seðlabankanum meðan við búum við það ástand sem við búum núna og að við gröfum ekki undan stýrivaxtastefnu hans. Það er með öðrum orðum enginn valkostur við það að vinna með Seðlabankanum við þær aðstæður sem eru nú á markaði.

Það er algert lykilatriði, eins og hæstv. félagsmálaráðherra rakti áðan, að við þróum leiðir til að efla almennan leigumarkað til að bæta aðstæður þeirra sem lakast eru settir á húsnæðismarkaði í dag og nýtum allt okkar svigrúm til að mæta nákvæmlega þeim þörfum. Það ríður mjög á að aðgerðir sem við grípum til núna verði ekki til að bæta á bál verðþenslu á markaðnum og grafa þannig undan afkomu fólks til lengri tíma litið.