135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:39]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður má passa sig að verða ekki of meyr. Það skal skýrt tekið fram að mér finnast vinnubrögð fjárlaganefndar undir forustu núv. formanns og varaformanns lofa góðu um að tryggja sjálfstæða aðkomu og vinnu fjárlaganefndar og Alþingis gagnvart vinnu fjárlaga, afgreiðslu þeirra og framkvæmd. Því geri ég svo miklar kröfur til þeirra, að þeir hafi ekki aðeins góð orð um heldur að þeir standi líka við þau þegar á þarf að herða. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum með að þeir skyldu ekki standa í lappirnar og tryggja eðlilegan og löglegan framgang Grímseyjarferjunnar og endursmíði hennar.

Það eru fleiri mál sem eru miklum vafa undirorpin eins og ráðstöfun eða meðferð annarra heimildargreina eins og ég vék að. Ég hygg að eitt mikilvægasta málið til að bæta fjárlagavinnuna, meðferð fjárlaga og framkvæmd þeirra sé að taka á og skera niður hinar opnu heimildir sem eru í heimildargreinum fjárlaga. Ég spyr hv. þingmann og formann fjárlaganefndar hvort hann sé ekki sömu skoðunar og ég í þeim efnum, að þar liggi stór veikleiki gagnvart framkvæmdarvaldinu.