135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:42]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Víst er pólitískur ágreiningur um áherslur, forgangsröðun og fjárveitingar til einstakra málaflokka og svo verður áfram. Hinn þátturinn sem lýtur að vinnubrögðunum, að sjálfstæði þingsins og lýðræðislegum ákvörðunum, eru atriði sem mikilvægt er að ná samkomulagi um.

Ýmis önnur atriði eru að mínu viti einnig óþingleg, þ.e. framkvæmd mála á Keflavíkurflugvelli með ráðstöfun og sölu eigna þar og ráðstöfun á málum í Hvalfirði og eignum þar, svo dæmi séu tekin. Ef til vill verður vikið að þeim síðar í umræðunni.

Ég tek undir orð hv. þm. Gunnars Svavarssonar formanns fjárlaganefndar um nauðsyn þess að taka á starfsháttum og að þingið fái haldið stöðu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við verðum jafnframt að gera það, einnig þegar á brýtur við framkvæmdarvaldið. Þess vegna lýsi ég aftur yfir vonbrigðum með að meiri hluti fjárlaganefndar skuli ekki hafa staðið á rétti þingsins varðandi fjárveitingar til endursmíði Grímseyjarferju á þinglegan hátt.