135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:03]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, um skuldahala Ríkisspítalanna segja meira um Sjálfstæðisflokkinn en ég hefði sjálfur nokkurn tíma þorað að hafa á orði. Ef mál eru með þeim hætti að skuldahalinn sé nú höggvinn af vegna þess að sjálfstæðismenn hafi komist í heilbrigðisráðuneytið, vil ég minna á að þetta er sami skuldahali og menn glímdu við áður, þetta er sami skuldahalinn og framsóknarmenn innan heilbrigðisráðuneytisins börðust fyrir að yrði tekinn af.

Staðan í ríkisfjármálum hefur ekki breyst til þeirra muna að það sé skýringin. Ef ég skil orð hv. þingmanns rétt er hann að lýsa vinnubrögðum fjármálaráðherra og ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þeirri stöðu sem er í ríkisstjórnarsamstarfi. Segir sú lýsing meira en mörg orð að skuldahalar séu þá höggnir af þegar sjálfstæðismaður hefur verið settur inn. Við erum að tala um sömu skuldirnar. Við erum ekki að tala um breytta stöðu og við erum síst af öllu að tala um að sá árangur hafi náðst á þeim fáu mánuðum sem liðnir eru síðan hæstv. heilbrigðisráðherra settist í það ráðuneyti.

Ég óska hv. heilbrigðisráðherra alls góðs í því embætti og vil ekki hafa þar uppi nein orð. En ekki hefur neitt það gerst í hans störfum sem hefur með þennan 1.800 millj. kr. skuldahala að gera heldur er einungis um að ræða þá samstöðu sem næst í ríkisstjórn. Í síðustu ríkisstjórn náðist ekki samstaða um að höggva þennan skuldahala af, og það var miður. Það varð samt ekki til þess að framsóknarmenn settu stjórnarsamstarfið í uppnám, langt frá því. En þetta lýsir Sjálfstæðisflokknum vel.