135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Atli Gíslason setja þetta örlítið á hvolf að því leyti til að ekki er hægt að fara yfir þetta mál í heild sinni í tveggja mínútna andsvari, enda er málið í sjálfu sér ekki komið inn á borð fjárlaganefndar nema þá í gegnum frumvarp til fjáraukalaga og frumvarp til fjárlaga. Við höfum ekki verið að skoða þetta sérstaklega. Eins og hv. þm. Atli Gíslason veit komu upplýsingar til fjárlaganefndar í síðustu viku sem nefndin fór yfir og fulltrúar fjármálaráðuneytisins gerðu grein fyrir. En þetta er niðurstaða meiri hlutans, ég veit ekki hver niðurstaða minni hlutans er, enda var kannski ekki tekið sérstaklega á þessu. Að vísu vék hv. þm. Jón Bjarnason að því í ræðu sinni sem segir í nefndaráliti meiri hlutans, að fjárlaganefnd muni skoða milli umræðna málefni er varða eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

Vil ég þá vísa til þess hlutverks, annars af meginhlutverkum fjárlaganefndar, sem er einfaldlega að fylgjast með og hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga í samvinnu við Ríkisendurskoðun og með tilvísun til fjárreiðulaganna. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áður varðandi fjárlög og fjáraukalög finn ég ekki fyrir öðru en að vilji sé til þess innan fjárlaganefndar að halda úti því verkefni og nefndin geri ekki hlé á störfum þann 10. desember og komi aftur saman í mars eða aprílmánuði eins og venja hefur verið heldur muni fjárlaganefndin fara yfir nýtt verklag og um leið halda úti því meginhlutverki sem ég hef áður vikið sem tengist framkvæmd fjárlaga.

Ég á ekki von á öðru en að þessar skýringar komi allar, að ekki þurfi annað en að kalla eftir þeim og þær muni berast okkur fljótt og vel.