135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:41]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka til máls um þetta og veita þær skýringar sem hann þó veitti. Grundvöllur þess er auðvitað að gerður hafi verið samningur um sölu eignanna og það vekur aftur spurningu um hvort sá samningur sé á vitorði fjárlaganefndar og almennings eða hvort þetta sé samningur sem er bara á milli fjármálaráðuneytisins og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og hefur ekki verið gerður sýnilegur.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að í þessum samningi bæri Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar að fara að öllum þeim lögum og reglum sem gilda um sölu ríkiseigna. Það blasir hins vegar við, eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að þeim reglum hefur ekki verið fylgt og það er upplýst af einstaklingum og öðrum aðilum sem ég hef talað við að eignirnar voru ekki auglýstar og kaupendur, sem Þróunarfélagið hefur hugsanlega velþóknun á, voru handvaldir. Ég lít satt best að segja þannig á, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki haft vitneskju um hvað mýsnar voru að aðhafast þegar kötturinn fór að heiman. Þannig lít ég á þetta. En það er ágætt að þetta mál upplýsist til hlítar og það mun væntanlega gera það næstu daga og engin vanþörf á, því að hér er verið að ráðstafa 1.700 íbúðum úr opinberri eigu. Til slíkra verka þarf að vanda af mikilli kostgæfni.