135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:45]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er deginum ljósara í þessu máli að í umsýslunni felst væntanlega það sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég efa það ekki. Það er hins vegar gildandi regla, samkvæmt lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007, að þegar ríkisstofnun eða félag í eigu ríkisins tekur slíka ákvörðun um sölu þarf að fara af stað ákveðið ferli. Ég efast ekki um að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hafi haft fulla heimild til að taka ákvörðun á stjórnarfundi um sölu þessara eigna. Það er aðferðin við söluna sem ég gagnrýni, hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að hún er ekki á gegnsæjum samkeppnisgrundvelli eins og lögin um opinber innkaup mæla fyrir um. Það er alveg ljóst.

Í lögunum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin, um skil á varnarsvæðum á Keflavíkurflugvelli, er orðið umsýsla notað. Það orðalag víkur ekki til hliðar lögum um opinber innkaup, það er deginum ljósara. Það þarf engan lögspeking til að sjá það.

Ég ítreka að hér er um heimildarlausa sölu að ræða. Hafi hæstv. ráðherra sett Þróunarfélaginu reglur um meðferð eigna er hið besta mál að þær komi fram hið fyrsta. Ég trúi því ekki að þær reglur hafi heimilað Þróunarfélaginu sölu þessara eigna til þeirra sem þeir hafa velþóknun á án þess að það hafi verið auglýst fyrir fram.