135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til umræðu. Ég vil taka fram í upphafi máls að ég er aðili að minnihlutaáliti fjárlaganefndar ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni.

Ég sagði við 1. umr. um fjáraukalagafrumvarpið að fjárlögin árið 2007 hefðu verið slakur spádómur um þróun fjármála ríkisins á þessu ári. Frumvarpið og breytingartillögur við það staðfesta þetta rækilega. Þær staðfesta m.a. að tekjur hafa aukist um 21% frá fjárlögum ársins 2007 en þar var gert ráð fyrir að tekjuafgangur yrði 9,2 milljarðar kr. Nú er gert ráð fyrir að tekjuafgangur verði 68,5 milljarðar kr. Spár fjármálaráðuneytisins hafa þar af leiðandi ekki staðist og vissulega þarf að endurskoða undirbúning fjárlagavinnunnar eins og vikið er að í áliti minni hlutans nú við 2. umr. fjáraukalaga og hefur einnig verið bent á í umræðum formanns og varaformanns hv. fjárlaganefndar.

Ég gerði að umræðuefni, hæstv. forseti, mismunandi spár greiningaraðila um hagstærðir og horfur, gerði það að sérstöku umræðuefni í fyrstu ræðu minni um fjárlög ársins 2008 sem við ræddum í fyrstu viku október. Ég vísaði til efasemda þeirra sem ég þá nefndi til sögunnar og ætla ekki að endurtaka það hér. Það er ágætlega skráð í þingtíðindi og alveg óþarfi að lengja umræðuna sem því nemur.

Minni hlutinn leggur fram tvær breytingartillögur við 2. umr. fjáraukalaga. Í fyrsta lagi að fella niður heimild um sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en með þeirri tillögu fylgir greinargerð sem ég ætla að vitna í.

Við gerum sem sagt tillögu um að fella úr gildi heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en ríkissjóður á um 20% í henni. Á fjárlögum ársins 2007 eru heimildir til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og ríkisstjórnin nýtti sér þá heimild, eins og frægt er orðið, með sölu á sínum hlut. Markmið þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með sölunni virðist fyrst og fremst hafa verið að setja í gang ferli til að koma orkuveitum og orkulindum úr eigu opinberra aðila í hendur einkaaðila á frjálsum markaði.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkafyrirtækis hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna úr samfélagseigu sem ekki sér fyrir endann á. Nægir þar að nefna framvindu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur, einkavæðingu og afhendingu samfélagseigna til útvalinna einkaaðila. Er nú af hálfu nýs meiri hluta í Reykjavík markvisst reynt að stöðva og vinda ofan af þeirri óheillaþróun og stöðva þar með áform um frekari einkavæðingu og sölu orkuveitna og orkulinda landsmanna.“

Síðan segir í niðurlagi greinargerðar með breytingartillögunni:

„Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild á fjárlögum til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ásamt Deildartunguhver.“ — Þetta er önnur breytingartillagan sem við gerum.

Hin breytingartillagan, sem við leggjum fram, hæstv. forseti, snýr að meðferð greiðslna að því er varðar hið fræga mál Grímseyjarferjuna. Við leggjum til að það verði gert með því að sérstaklega verði greiddar úr ríkissjóði þær upphæðir sem þarf til að klára Grímseyjarferjuna, sem áætlað er að nemi 487 millj. kr. Við leggjum þar af leiðandi til að hætt verði við greiðslur sem settar voru í þann farveg og teknar voru úr sjóðum Vegagerðarinnar, svokölluðum ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar. Við leggjum til að þessi upphæð komi beint inn á fjárlögin úr ríkiskassanum. Vissulega koma allar greiðslur úr ríkiskassanum, eins og hv. varaformaður fjárlaganefndar minntist á áðan, en þetta er frekar spurning um það hvernig menn fara með þessa fjármuni í meðferð og í bókhaldi og hvaðan þeir er teknir.

Þegar fjármunir eru teknir úr ónotuðum sjóði Vegagerðarinnar lít ég svo á að það geti haft áhrif á önnur verk, m.a. í samgönguáætlun, sem við hv. þingmenn höfum þá verið búnir að samþykkja að Vegagerðin fylgdi eftir. Við fáum vissulega annað slagið dæmi um slík verk. Ég minni á vegarspotta upp í Borgarfirði þar sem leggja átti bundið slitlag á 6 km kafla en ekki var hægt að klára nema 4,5 km. Ekki veit ég hvort þetta bitnar á slíkum verkefnum en þetta getur haft áhrif. Við teljum einfaldlega réttara að fara með fjármuni eins og við leggjum til, að ákveðið verði að fjármögnun nýrrar Grímseyjarferju verði merkt með sama hætti og ríkisendurskoðandi lagði til á sínum tíma þegar gerðar voru sérstakar athugasemdir við það hvernig með þessi mál hefur verið farið. Við teljum sem sagt að verið sé að taka lán frá Vegagerðinni, frá öðrum framkvæmdum, sem við vitum svo sem ekki nákvæmlega hverjar eru, og miklu eðlilegra sé að þetta sé merkt með þeim hætti sem við leggjum til. Þannig verða fjárreiðulögin virt.

Gerð er sérstök grein fyrir því í nefndaráliti okkar í minni hlutanum hvað við teljum að þurfi að koma til varðandi fjárreiðulögin og sérstaklega er vitnað til þeirra. Ég ætla ekki að fara að endurlesa það hér því að hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir það í framsögu sinni en það varðar einkum 33. gr., 43. gr. og 44. gr. fjárreiðulaga.

Í henni segir, hæstv. forseti:

„Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skal leitað í lokafjárlögum.“

Í texta fjárreiðulaga, sem er ákaflega skýr, er kveðið á um vinnulag. Framkvæmdarvaldið hefur í raun tekið sér fjárveitingavald og er það mikið vandamál. Þegar frumvarp til fjáraukalaga kemur fram er oft búið að ákveða eða samþykkja að inna af hendi þær greiðslur sem leitað er heimilda eftir og er það ekki samkvæmt lögunum. Á það hefur ítrekað verið bent en hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki farið að þeim tilmælum eða ábendingum. Við teljum nauðsynlegt að skerpt sé á ákvæðum í fjárreiðulögum og að heimildirnar séu skýrar.

Í nefndarálitinu bendum við á að eðlilegt sé að þegar ný lög eru sett, sem í felast fjárútlát, skuli flutt fjáraukalagafrumvarp þegar að vori til að afla heimilda fyrir þeim fjárútlátum sem þingið hefur samþykkt eftir að fjárlög ársins hafa verið afgreidd. Ég tel afar nauðsynlegt að við breytum vinnulaginu. Reyndar hefur komið fram í málflutningi formanns og varaformanns hv. fjárlaganefndar að breyta þurfi vinnukröfum nefndarinnar að ýmsu leyti og að fjárlaganefndin eigi að hafa meira frumkvæði varðandi fjárlagagerðina en verið hefur. Ég tek undir það og mun standa með meiri hluta fjárlaganefndar að því að reyna að lagfæra vinnubrögðin, ekki er vanþörf á. Ég vænti þess að við sem störfum í fjárlaganefnd njótum þess að nokkru að forustumenn í fjárlaganefnd koma úr sveitarstjórnargeiranum. Þeir hafa fengist þar við fjárreiður og stjórn fjármála sveitarfélaga og geta þar af leiðandi lagt okkur lið við að taka upp ný vinnubrögð og skipuleggja vinnuna betur. Ég er sannfærður um að okkur tekst það og tel að samstarfið í fjárlaganefndinni hafi verið ágætt.

Alþingi ber ábyrgð á fjárveitingavaldinu og fer með það en ekki veitir af því að skerpa á því hlutverki þingsins. Framkvæmdarvaldið á hins vegar að vera framkvæmdaraðilinn þegar búið er að samþykkja fjárlög og fjárlaganefndin má gjarnan verða sjálfstæðari í sínum störfum en hún hefur verið á undanförnum árum. Vissulega verður aldrei undan því vikist að meiri hluti fjárlaganefndar á hverjum tíma er mjög tengdur ríkisstjórn og getur aldrei annað en unnið mál í samræmi og samráði við hana. Margt má þó lagfæra í vinnubrögðunum.

Sú ríkisstjórn sem nú situr tekur við kosningaloforðum sem lofað var á síðasta vetri af fyrrverandi ríkisstjórn. Ekki er gott að snúa frá loforðum og uppáskrifuðum samningum þannig að nú er það hlutskipti fjárlaganefndarinnar að reyna að standa við þau eftir fremsta megni. Þar af leiðandi má segja að fjárlaganefndin, þótt ný sé, taki ýmislegt í arf sem fyrri ríkisstjórn og ráðamenn lofuðu.

Ég vona að vinnulagi fjárlaganefndar verði breytt og hef fulla trú á að það verði gert í framtíðinni en það tekur auðvitað tíma. Ég hef væntingar til nýs formanns og varaformanns fjárlaganefndar um að þessum málum verði stýrt til betri vegar og vinnulaginu verði breytt. Auðvelda má vinnuna og gera hana skipulegri en verið hefur og vissulega hefur það verið reynt áður. Menn eru þó oft svolítið fastir í sama farinu en nýir vendir sópa best, eins og sagt er. Ég er tilbúinn að standa að breyttu verklagi og vonandi verður það til þess að fjárlaganefnd nær meiri samstöðu um mál í framtíðinni.

Ekki hefur verið mikill ágreiningur í fjárlaganefndinni í haust, alla vega ekki varðandi fjáraukalögin. Ég tel að rétt hafi verið hjá fjárlaganefnd að taka á vanda hinna ýmsu stofnana sem staðið hafa út af, ekki bara á síðasta ári heldur jafnvel árið þar á undan og lengur. Þar ber auðvitað hæst þá miklu fjármuni sem þarf til Landspítalans upp á 1,8 milljarða kr. Auðvitað eru margar ástæður fyrir því, meiri hlutinn benti m.a. á að mannekla hefði orðið þess valdandi að kostnaður jókst og það er örugglega rétt. Kostnaður hleðst upp því að launin haldast ekki í því horfi sem gert hefur verið ráð fyrir þegar kemur að því að greiða álag og yfirvinnu til að geta haldið úti eðlilegri starfsemi, hvað þá heldur þegar skuldirnar safnast upp og byrja að hlaða á sig dráttarvöxtum.

Þótt breytingar sem þessar og skipulag eigi almennt heima í fjárlögum er að mínu viti rétt að reyna að skera niður eitthvað af vandamálunum nú við afgreiðslu fjáraukalaganna. Menn hafa reynt að beita aðhaldi og skipulögðum vinnubrögðum í rekstri og ég tel að við eigum að gera það sama í nýjum fjárlögum. Fjárveitingar sem þar eru markaðar eiga að duga til rekstrar viðkomandi stofnana, á heilbrigðissviðinu, innan skólakerfisins, í málefnum fatlaðra og annars staðar þar sem við þurfum að þá þjónustu sem lög og reglur mæla fyrir um.

Hæstv. forseti. Ég hef ræðu mína ekki lengri og tel að málin séu á réttri leið. Ég þakka fyrir hvernig unnið hefur verið í fjárlaganefnd í haust og vænti þess að vel verði unnið í framtíðinni.