135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:33]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst hvað varðar spágerðina þá er það ekki einfalt mál. Ég minnist þess að á fundi fjárlaganefndar var þetta rætt með fulltrúum frá fjármálaráðuneytinu og fram kom að töluvert af nýju starfsfólki fengist við spágerðina og þessa vinnu og jafnvel væri mannekla, þ.e. að menn hefðu ekki tíma eða getu til að vinna öll þau verk sem þarf að vinna.

Ég held, eins og því miður oft er, að svona hlutir kosti peninga. Það tekur tíma til að byggja upp öflugan hóp. Auðvitað kemur líka til greina að menn velti því fyrir sér hvernig við getum betur nýtt alla þá spágetu, ef nota má það orð, sem er t.d. í fjármálastofnunum. Bankarnir búa yfir gríðarlegri þekkingu til þess að fást við þetta. Þeir eiga alla sína fjárhagslegu afkomu undir því að spá rétt.

Ég hef ekkert einfalt svar við þessu. Ég tel að við verðum að horfa sérstaklega til þessara þátta, þótt mér sé ekki ljúft að segja það úr þessum stól núna, en ef það kostar okkur meira fé að byggja upp þessa deild þá tel ég að þeim fjármunum yrði gríðarlega vel varið.

Hvað varðar greiðslur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þá er ástæðan fyrir þeirri áherslu minni einfaldlega sú að ég þykist vita að á meðan framkvæmdarvaldið sér peninga liggja lausa inni í Seðlabankanum þá verði ásóknin í þá peninga alltaf meiri og meiri og meiri. Þau hrúgast upp, öll hin góðu verkefni. Þess vegna held ég að ágætt væri að taka þessa freistingu frá.

Við höfum fleiri leiðir en ein af þeim er sú að við erum búin að borga svo rækilega upp stóran hluta af skuldum ríkissjóðs að það er ekki mikið eftir til að gera það. Þetta eru alla vega þær skuldbindingar sem við munum þurfa að greiða og ég legg til að við gerum það aðeins hraðar en ætlað var í upphafi.